Körfubolti

Tíu ár síðan Njarðvík vann í Vesturbænum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson og Brynjar Þór Björnsson eigast við.
Haukur Helgi Pálsson og Brynjar Þór Björnsson eigast við. vísir/anton
Annað árið í röð mætast KR og Njarðvík í hreinum úrslitaleik um sæti í úrslitaeinvígi Domino´s deildar karla í körfubolta og líkt og í fyrra fer leikurinn fram á föstudagskvöldi í DHL-höllinni. Leikur kvöldsins hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Suma er eflaust enn að dreyma oddaleikinn í fyrra sem KR vann eftir tvær framlengingar þrátt fyrir 52 stig frá Stefan Bonneau. Ætli Njarðvíkingar í lokaúrslitin í fyrsta sinn í níu ár þá þurfa þeir að gera það sem engu liði hefur tekist í þrjú ár og þeim sjálfum hefur ekki tekist í heilan áratug.

KR-ingar hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn undanfarin tvö ár og töpuðu síðast seríu í úrslitakeppninni á móti Grindavík fyrir þremur árum.

Njarðvíkingar hafa jafnað einvígið í tvígang með endurkomusigrum í Ljónagryfjunni en þeir hafa tapað báðum leikjum sínum í DHL-höllinni. Þetta er í raun að spilast eins og í fyrra sem ætti að lofa góðu fyrir leik kvöldsins sem var frábær skemmtun.

Það þarf að fara alla leið til 3. apríl 2006 til að finna Njarðvíkursigur í DHL-höllinni en þá slógu Njarðvíkingar KR út úr undanúrslitum úrslitakeppninnar á leið sinni að þrettánda og síðasta Íslandsmeistaratitli sínum.

Síðan þetta mánudagskvöld fyrir tíu árum hafa Njarðvíkingar tapað 19 leikjum í röð í Vesturbænum.

Njarðvíkingar töpuðu í tvíframlengdum fyrsta leik í þessu undanúrslitaeinvígi en áttu síðan fá svör í 18 stiga tapi í þriðja leiknum. Þetta voru því mjög ólíkir leikir sem hafa farið fram í DHL-höllinni í þessu einvígi liðanna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×