Körfubolti

Hjálmar nefbrotinn en ætlar að spila með grímu í lokaúrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjálmar Stefánsson.
Hjálmar Stefánsson. Vísir/Auðunn og inssíða Hauka
Haukamaðurinn Hjálmar Stefánsson ætlar ekki að láta brotið nef koma í veg fyrir það að hann spili í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Haukarnir eru komnir í úrslitin í fyrsta sinn í 23 ár.

Nú er komið í ljós að Hjálmar nefbrotnaði í þriðja leik Hauka og Tindastóls þegar hann fékk olnboga Darrel Lewis í andlitið. Hjálmar gat ekki spilað í fjórða leiknum en félagar hans kláruðu dæmið og komu liðinu í úrslitin án hans.

„Ég nefbrotnaði en því var kippt aftur í lag. Það þýðir bara það að ég verð með grímu í næsta leik. Ég mun reyna mitt besta til þess að spila næsta leik," segir Hjálmar í samtali við Vísi.

Sjá einnig:Atvikið sem sendi Hjálmar upp á spítala: Hvernig er þetta villa á Haukamanninn?

„Það var ekki gert neitt fyrst því það var ekki hægt að sjá þetta fyrir bólgunni. Ég vissi þetta ekki fyrr en ég fór í skoðun í morgun. Þeir þreifuðu á nefinu og það var greinilega skekkja í því. Þeir var bara deyft og nefinu kippt í lag," segir Hjálmar.

Hjálmar segir að það hafi ekki verið það vont að láta rétta nefið sitt. „Ég verð nú að segja að höggið var verra," sagði Hjálmar.

Hjálmar Stefánsson hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína í úrslitakeppninni og þá sérstaklega varnarlega þar sem hann hefur verið að dekka bestu sóknarmenn mótherjanna. Haukarnir mun því fagna endurkomu hans í liðið.

Sjá einnig:Hjálmar með einkenni heilahristings: Stokkbólginn og marinn en gæti mætt í næsta leik

„Ég get næstum því staðfest það að ég verð með í næsta leik," segir Hjálmar og hann er ekki með nein einkenni heilahristings. „Þau eru öll horfin og heilahristingurinn er ekkert vandamál núna," segir Hjálmar en hann þarf þó að verja brotna nefið á vellinum.  

„Ég held ég fái bara grímu lánaða frá Haukum. Því verður reddað það verður ekkert vandamál," segir Hjálmar og hann segir það hafa verið erfitt að geta ekki aðstoðað félagana í leik fjögur.

„Það er versta tilfinning í heimi að sitja á bekknum og geta ekkert hjálpað til," segir Hjálmar.

Það kemur í ljós annað kvöld hvort Haukar mæta KR eða Njarðvík í úrslitaeinvíginu sem hefst síðan á þriðjudaginn í næstu viku. „Ég er að spá í því að fara á oddaleikinn enda langar mig að sjá hann," segir Hjálmar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×