Körfubolti

Klikkaði á öllum skotunum sínum en var samt valinn maður leiksins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. Vísir/Anton
Leikmenn geta verið sínu liði gríðarlega mikilvægir þrátt fyrir að skora lítið og gott dæmi um það er frammistaða Pavel Ermolinskij á móti Njarðvík í gær í þriðja leik KR og Njarðvíkur í undanúrslitum Domino´s deildar karla.

Karfan.is hefur valið mann leiksins, svokallaðan Lykilmann leikjanna, eftir alla leikina í úrslitakeppnum Domino´s deildanna og í gær var komið að Pavel að vera valinn.

Pavel Ermolinskij skoraði bara tvö stig á þeim rúmu 34 mínútum sem hann spilaði en hann klikkaði á öllum fjórum skotum sínum utan af velli og það voru fimm leikmenn KR-liðsins sem skoruðu níu stigum eða meira en hann í gær.

Pavel sýndi það og sannaði að mikilvægi hans liggur á mörgum sviðum og hann þarf alls ekki að skora til að KR-liðinu gangi vel. Þrátt fyrir að skora bara tvö stig í leiknum þá var Pavel framlagshæstur í KR-liðinu ásamt Helga Má Magnússyni.

Pavel var nefnilega með 14 fráköst, 11 stoðsendingar, 8 fiskaðar villur og 3 stolna bolta í leiknum og KR-liðið vann með 21 stigi þegar hann var inná vellinum.

„Pavel átti erfitt uppdráttar í leiknum hvað stigaskor varðar en að öðru leyti stýrði hann sóknarleik KR-ingar með stakri prýði og var hæstur í framlagi ásamt Helga Má með 19 stig," segir í rökstuðningi Karfan.is fyrir valinu á Pavel.

KR komst í 2-1 með þessum sigurleik á Njarðvík og vantar því aðeins einn sigur til viðbótar til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu þriðja árið í röð. Fjórði leikur liðanna fer fram í Njarðvík á miðvikudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×