Innlent

Útlit fyrir að vetur og sumar frjósi saman - þó það virðist segja lítið um sumarið

Birgir Olgeirsson skrifar
Hitaspá Veðurstofu Íslands fyrir nóttina.
Hitaspá Veðurstofu Íslands fyrir nóttina. Vísir/Vedur.is
Sumardagurinn fyrsti er á morgun og útlit fyrir að sumar og vetur frjósi saman, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Samkvæmt þjóðtrú boðar það gott sumar ef frost er að morgni sumardagsins fyrsta en áður fyrr var túlkunin á góðu sumri sú ef nyt búpenings yrði góð. 

Í seinni tíð hefur þessari þjóðtrú vanalegt fylgt óskhyggja um hlýtt og gott sumar en veðurfræðingurinn Trausti Jónsson hefur bent á að lítil fylgni er á milli þess að hlýtt sumar komi í kjölfar þess að vetur og sumar frjósi saman. Sagði hann söguna sýna að þvert á móti væri fremur von á köldu sumri ef frost er að morgni sumardagsins fyrsta.

Í útvarpsfrétt Bylgjunnar frá sumardeginum fyrsta í fyrra var vitnað í Trausta sem sagði að frá 1922 hafi það gerst í 33 skipti að vetur og sumar frjósi saman. 20 sumur af þeim voru undir meðallagi, þegar litið er til sólarstunda, hitastigs og úrkomu, en úttekt Trausta náði þó aðeins til Reykjavíkur.

Á bloggsíðu sinni árið 2013 benti Trausti á að á sumardeginum fyrsta árið 1974 var lægsta lágmark á landinu öllu 3,5 stig. Hvergi fraus í byggðum en þetta var eitt hagstæðasta sumar á Suðurlandi um langt árabil. Tveimur árum síðar var einni frostlaust um land allt á aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Var það óminnilega hagstætt sumar um landið norðan- og austanvert – en mikið rigningasumar syðra. Þá nefndi hann að gaddfrost var í Reykjavík aðfaranótt sumardagsins fyrsta árið 1983 á undan versta sumri sem um getur þar um slóðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×