Innlent

Forsætisráðherra telur Vífilsstaði álitlegan kost fyrir nýjan Landspítala

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð við lyklaskipti í forsætisráðuneytinu. Þeir eru sammála um að álitlegt væri að byggja nýjan Landspítalan á Vífilsstöðum.
Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð við lyklaskipti í forsætisráðuneytinu. Þeir eru sammála um að álitlegt væri að byggja nýjan Landspítalan á Vífilsstöðum. vísir/ernir
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, telur að það álitlegt að byggja nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut, til dæmis á Vífilsstöðum. Þetta kemur í fram í skriflegu svari hans við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstri grænna, um byggingu nýs Landspítala.

Fyrirspurnin er í tveimur liðum og snýr annars vegar að því hvar ráðherra álítur heppilegast að nýr Landspítali rísi og hvaða forsendur eru einkum fyrir þeirri afstöðu. Sigurður Ingi segir að fyrir liggi stefnumörkun Alþingis um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala og unnið sé samkvæmt því.

Þá spyr Steingrímur hvort að ráðherra telji „koma til greina að reisa nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut, sbr. viðhorf forvera hans í starfi forsætisráðherra, um hvaða staðsetningu væri þá að ræða og með hvaða rökum?“

Hér vísar Steingrímur í þá skoðun Sigmundar Davíðs sem hann viðraði í vetur um að nýr Landspítali ætti að rísa á Vífilsstöðum í stað þess að byggt yrði upp við Hringbraut. Svar Sigurðar Inga við þessari spurningu er stutt:

„Það væri að mati ráðherra mjög álitlegt að byggja nýjan Landspítala annars staðar, t.d. á Vífilsstöðum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×