Kristín Þóra Tómasdóttir, sóknarprestur í Laugarneskirkju, segir að kirkjan hafi verið opin mönnunum tveimur í nótt til að tjá samstöðu með þeim og vekja athygli á aðgerðarleysi íslenskra yfirvalda í málefnum einstakra hælisleitenda. Starfsfólk kirkjunnar hafi lengi haft áhuga á því að láta reyna á hugmyndina um kirkjuna sem griðastað.
„Við vildum sjá hvort það væri hægt að virkja þessa hugmynd, ekki síst til þess að reyna að þrýsta á um breytt verklag í sambandi við meðferð umsókna hælisleitenda,“ segir Kristín.
Mennirnir tveir, Alí og Majed, voru sóttir af lögreglu klukkan fimm í nótt en þá höfðu um þrjátíu manns beðið í kirkjunni í klukkustund, hlýtt á tónlist og rætt saman.
Myndbönd sem Baldvin Björgvinsson tók og Vísir hefur klippt saman sýna lögreglumenn fylgja mönnunum út úr kirkjunni.

Kristín segir skipuleggjendur samverustundarinnar í nótt hafa viljað láta reyna á þetta, þó þau hafi í raun ekki búist við því að þetta færi öðruvísi. Þau hafi þó náð að útskýra mál sitt fyrir lögreglu og ljóst er að gjörningurinn hefur þegar vakið nokkra athygli á samskipta- og fjölmiðlum.
Ekki eru allir þar sammála nálgun Kristínar og Toshiki Toma, presti innflytjenda, og ganga sumir svo langt að segja að þau hvetji til lögbrota.
„Við mættum lögreglu með virðingu og drengirnir voru búnir að gefa lögreglu það upp að þeir yrðu þarna þegar það ætti að sækja þá,“ segir Kristín. „Og þarna vorum við bara komin til þess að sýna þeim stuðning. Við erum alls ekki að hefja okkur yfir landslög en við viljum hvetja til meiri ábyrgðar og meiri sanngirni í meðferð yfirvalda í útlendingamálum. Hún er sannarlega ekki yfir gagnrýni hafin.“
Mennirnir tengjast Laugarneskirkju í gegnum starf kirkjunnar með hælisleitendum síðasta eina og hálfa árið. Kristín segir það koma til greina að reyna þetta á ný síðar.