Framleiðslufyrirtækið Pegasus hefur ákveðið að styrkja Tólfuna, stuðningsmannasveit íslenska landsliðsins, um 200 þúsund krónur en þeir halda til Frakklands um helgina til að styðja við bakið á strákunum okkar sem mæta Frakklandi í París á sunnudag í 8-liða úrslitum EM.
Snorri Þórisson hjá Pegasus segir að hann hafi það séð það á leik Englands og Íslands í 16-liða úrslitunum hversu miklu það skipti að Tólfan sé í stúkunni.
„Það skiptir öllu máli að þeir séu á leiknum og því vildum við styrkja þá til ferðarinnar. Þeir héldu uppi gríðarlegri stemningu á Englandsleikinn og það verður væntanlega ekki minni stemning í París,“ segir Snorri í samtali við Vísi.
Fjöldi fyrirtækja hefur styrkt Tólfuna síðustu daga til fararinnar, þar á meðal Kexverksmiðjan Frón, Eimskip og Epli.

