Íslenski boltinn

Góðgerðarleikur til styrktar Útmeð'a í Fossvoginum í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Berserkir eru komnir langt yfir markmið sitt í söfnuninni en eru ekki hættir.
Berserkir eru komnir langt yfir markmið sitt í söfnuninni en eru ekki hættir. mynd/berserkir
Berserkir, venslafélag Víkings í Reykjavík sem leikur í 4. deild, mætir Stokkseyri í næst síðustu umferð A-riðils 4. deildar í kvöld á Víkingsvelli. Leikurinn verður notaður sem góðgerðarleikur og söfnun fyrir átakið Útmeð'a sem Berserkir styrkja í Reykjavíkurmaraþoninu.

Berserkir eru með hlaupahóp sem er búinn að safna 750.000 krónum en markmið hans var að safna hálfri milljón fyrir samtökin Útmeð'a. Málefni samtakanna stendur Berserkjum nærri því Daníel Freyr Sigurðarson, einn leikmaður liðsins, tók eigið líf í september á síðasta ári.

Önnur Félög í fjórðu deildinni á borð við KH, ÍH og KFG hafa heitið á Berserki fyrir hlaupahópinn í maraþoninu og hvetja þeir fleiri félög til að gera það sama.

Vanalega er frítt á leiki í fjórðu deildinni en í kvöld munu Berserkir rukka inn. Vallargestir ráða þó algjörlega hversu mikið þeir borga fyrir að sjá leikinn, en allur ágóðinn mun renna til Útmeð'a. Einnig verða seldar léttar veitingar gegn frjálsum framlögum og rennur ágóðinn sömu leið.

Leikurinn hefst klukkan 20.00, en fyrir þá sem komast ekki í kvöld en vilja samt styrkja þetta góða málefni er hægt að heita á hlaupahóp Berserkja í Reykjavíkurmaraþoninu sem fer fram á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×