Innlent

Þingmaður telur lykilatriði að Sigmundur Davíð þvælist ekki fyrir þingstörfum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Páll og Sigmundur eru ósammála um hvor þeirra gæti þvælst fyrir þingstörfum.
Páll og Sigmundur eru ósammála um hvor þeirra gæti þvælst fyrir þingstörfum. vísir
Það er lykilatriði fyrir friðsömu og skilvirku sumarþingi að formaður Framsóknarflokksins þvælist ekki fyrir. Svo ritar Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, á Facebook-síðu sína.

Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist úr stóli forsætisráðherra í vor var tilkynnt í þinghúsinu að kjörtímabilið nú yrði stytt um eitt löggjafarþing. Síðan þá hefur verið vafi uppi um hvenær kosningar skyldu fara fram. Í síðustu viku var tilkynnt að kosningar myndu fara fram 29. október.

Ákveðnir þingmenn Framsóknarflokksins, þar á meðal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, og formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, hafa talað um afleik stjórnarinnar í þessum efnum. Fastur kjördagur veiti stjórnarandstöðunni vopn og hún geti tafið þingstörf.

Sjá einnig:Sigurður Ingi: Sameiginleg sýn að kjósa 29. október

Í frétt á vef RÚV í gær kom fram að til stæði að kynna frumvörp sem draga úr vægi verðtryggingar. „Þetta er augljóslega eitt af stóru málunum þannig að ég geri ráð fyrir að stjórnarandstaðan, vilji hún kosningar á þessum degi, þvælist ekki mjög mikið fyrir,“ sagði Sigmundur Davíð í viðtali við RÚV af því tilfelli.

„Sigmundur Davíð virðist vera kominn í leitirnar aftur en eins og allir vita þá kom hann óvænt heim í sumar. En svo hvarf hann aftur og gaf sér meira segja ekki tíma til þess að vera viðstaddur innsetningu nýs forseta lýðveldsins einn formanna stjórnmálaflokka,“ segir í áðurnefndri færslu Páls Vals en þar gerir hann umrædd ummæli Sigmundar að umræðuefni.

„En nú er hann semsagt mættur, fjallbrattur sem fyrr og segir að það sé hugsanlega hægt að kjósa 29. okt ef stjórnarandstaðan verði ekki að flækjast fyrir. Ég tel það aftur á móti lykilatriði fyrir friðsömu og skilvirku sumarþingi að hann sjálfur verði ekki að þvælast fyrir. Það er sá lærdómur sem má draga af þingstörfum síðasta vor.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×