Innlent

Almennur einbeitingaskortur og spenningur meðal nemenda

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins fékk að fylgjast með uppsetningu sviðsins í Kórnum á dögunum.
Ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins fékk að fylgjast með uppsetningu sviðsins í Kórnum á dögunum. vísir/vilhelm
Nemendur í Hörðuvallaskóla í Kópavogi fá forskot á sæluna í dag því unglingadeildin er sambyggð Kórnum, þar sem tónleikar Justins Bieber fara fram í kvöld, og hafa þeir heyrt vel í hljóðprufum poppstjörnunar.

Ágúst Frímann Jakobsson, skólastjóri Hörðuvallaskóla, segir mikinn spenning ríkja í skólanum, sérstaklega þegar tónlistin tekur að óma.

„Það heyrist sérstaklega vel í tónlistinni þegar krakkarnir eru í mat, enda er unglingadeildin bara alveg við Kórinn. Það er alveg titringur á liðinu og þau eiga svolítið erfitt með einbeitingu, bæði í dag og í gær, og það er fylgst vel með umferð út um gluggana,“ segir Ágúst í samtali við Vísi.

Hann segir skólastarf fara fram með hefðbundnum hætti í dag. Þá segist hann ekki hafa orðið var við það að krakkar taki sér frí í skólanum vegna tónleikanna. „Það er bara vel mætt,“ segir hann.

Þannig að skólastarf hefur almennt gengið vel í dag?

„Já já. Við skulum segja það. Svona fyrir utan spenning og almennan einbeitingaskort,“ segir Ágúst Frímann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×