Við hringveginn í Berufirði, í Fossárvík, um 15 kílómetra frá Djúpavogi, blasir fagur foss við ferðamönnum. Þeir freistast því til að beygja þar út af, leggja bílnum og taka stuttan göngutúr til að skoða fossinn og gljúfrið.

En þarna verður mörgum mál og þarna er ekkert salerni. Skiltið sem bændur hafa neyðst til að setja upp á svæðinu er nöturlegt en þar er ferðamönnum bent á að gera ekki þarfir sínar.
„No shit. No paper,“ stendur á enskri tungu á skiltinu. Alda segist iðulega sjá þar fleiri manns gera þarfir sínar úti í náttúrunni.
„Hvað á fólkið að gera?“ spyr hún.

„Okkur vantar klósett af því að erlendu ferðamennirnir þurfa líka að kúka,“ segir Alda tæpitungulaust.
„Maður getur ekki tínt ber í sumum brekkunum sem maður tíndi alltaf berin. Ef maður fer hérna niður og ef þú sérð ekki veginn þá getur maður verið viss um að maður finnur klósettpappír þar inn á milli trjánna. Þessvegna tínir maður bara ber í dag þar sem maður sést frá veginum.“
-Þetta er náttúrlega ófremdarástand?
„Þetta er bara skelfilegt! Þetta er bara alveg skelfilegt!“
