Innlent

Telur yfirvöld þurfa að bregðast við yfirlýsingu Sigmundar um tölvubrot

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Róbert Marshall
Róbert Marshall Vísir/gva
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, gerði yfirlýsingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrum forsætisráðherra, af haustþingi miðstjórnar Framsóknarflokksins að efni fyrirspurnar sinnar til utanríkisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Róbert benti á að Sigmundur Davíð hafi orðrétt sagt „ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá mér.“ Vísir greindi frá því fyrr í dag að embætti ríkislögreglustjóra hafi ekki verið tilkynnt um innbrot í tölvu fyrrverandi forsætisráðherra.

„Og þá veltir maður fyrir sér hvaða fer í gang þegar upplýsist um slík tíðindi. Nú heyra þjoðaröryggismál undir utanríkisráðherra. Það hlýtur einhver rannsókna að fara í gang þegar um slíkt mál er að ræða,“ sagði Róbert í fyrirspurn sinni. 

Róbert sagði að fyrirspurnin kæmi til vegna þess að hann hefði á tilfinningunni að stjórnvöld tækju yfirlýsingu Sigmundar Davíðs frekar kæruleysislega. „Ég geri það ekki. Það er alvarlegt ef hægt er að brjótast inn í tölvu forsætisráðherra,“ sagði Róbert.

Þá spurði hann einnig hver hefði brotist inn í tölvu Sigmundar, hvenær það hefði verið gert og hvaða rannsókn sé í gangi til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. Þá vildi hann einnig vita hvaða upplýsingar hafi verið í tölvu Sigmundar þegar innbrotið átti sér stað. 

Róbert benti á að slík atvik hafa valdið miklum usla víðs vegar um heiminn og tók sem dæmi tölvupóstsendingar Hillary Clinton þegar hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem töldust til þjóðaröryggismála. 

„Menn hljóta að spyrja eftir svörum þegar slíkar yfirlýsingar eru gerðar. Og kannast ráðherrann við að henni sé veitt eftirför eða reynt sé að brjótast inn í tölvuna hennar?“ sagði Róbert jafnframt.

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sagði í svari sínu afskaplega mikilvægt að skoða málin þegar um slíka hluti væri að ræða. Hún sagði að farið yrði yfir málið og að þau stjórnvöld sem bæru ábyrgð á því myndu gera það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×