ÍBV vann sannfærandi 3-0 sigur þegar liðið tók á móti KR í 16. umferð Pepsi-deildar kvenna en öll mörk Eyjaliðsins komu í seinni hálfleik.
KR berst fyrir lífi sínu í deild þeirra bestu en Eyjakonur sigla lygnan sjó um miðja deild þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu.
Abigail Cottam kom ÍBV yfir á 61. mínútu en korteri síðar bætti Cloe Lacasse við öðru marki ÍBV. Sigríður Lára Garðarsdóttir bætti við þriðja marki ÍBV og gulltryggði sigurinn á 91. mínútu.
KR á erfiðan leik gegn Stjörnunni í næstu umferð en liðið á að lokum leik gegn botnliði ÍA í lokaumferðinni á meðan ÍBV mætir FH og Þór/KA í lokaumferðunum.
