„Það er ótrúlega gott að vera komin með titilinn aftur hingað í Garðabæinn,“ segir Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, eftir að liðið hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild kvenna árið 2016. Liðið vann FH 4-0 á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld.
„Við settum okkur þetta markmið 13. september í fyrra, eftir að Breiðablik hafði tryggt sér titilinn. Þetta er svo ótrúlegt lið og það sást bara strax fyrir tímabilið þegar við misstum landsliðskonur í meiðsli og annað,“ segir Ásgerður.
Hún segir að félagið sem standi á bakvið liðið sé magnað og allt þjálfarateymið.
„Karakterinn sem við sýnum á köflum í sumar hefur verið með ólíkindum. Ég er bara ótrúlega stolt og ég get varla lýst því hvernig er að vera fyrirliði í svona liði.“
Ásgerður skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu í leiknum í dag.
„Ég var næst markahæst hjá Stjörnunni í fyrra með átta mörk og var ekki búin að skora neitt fyrir leikinn í dag og ég bara gat ekki annað en skorað á þessu tímabili, annað var ekki hægt.“
