Fótbolti

Aron Elís: Við klúðruðum þessu sjálfir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Aron Elís Þrándarsson var súr á svipinn eftir að Ísland tapaði gegn Úkraínu í lokaleik undankeppninnar fyrir Evrópukeppni u-21 í fótbolta í kvöld. Lokatölur 2-4 og Aron Elís segir að íslensku leikmennirnir geti sjálfum sér um kennt.

„Við klúðruðum þessu sjálfir. Í stöðunni 1-0 leið mér ágætlega en í seinni hálfleik leysist leikurinn upp þegar þeir jafna og það er nákvæmlega það sem við vildum ekki,“ segir Aron Elís.

Íslenska liðið spilaði frábærlega í fyrri hálfleik og hefði léttilega getað gengið frá leiknum með smá heppni. Það gekk þó ekki eftir og Úkraínumenn komu vel stemmdir inn í seinni hálfleik.

„Við vissum að þeir myndu keyra á okkur. Kannski var hugsunin hjá okkur að við værum komnir með markið og að þá þyrftum við að halda. Eftir á að hyggja er það kannski of varnarsinnuð hugsun en svo fór sem fór,“ segir Aron Elís.

Íslenska liðið þurfti aðeins á sigri að halda óháð öðrum úrslitum en tapið gerði það að verkum að bæði Makedónía og Frakkland skutust upp fyrir Ísland sem situr eftir með sárt ennið. Aron Elís var eðlilega vonsvikinn í leikslok.

„Þú getur rétt ímyndað þér hvernig tilfinningin er. Þetta er tveggja ára vinna og við klúðrum þessu í síðasta leik á heimavelli.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×