Handbolti

Fimmti sigur Ljónanna í röð | Bjarki markahæstur Berlínarrefanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander skoraði fimm mörk í sigrinum á Wetzlar.
Alexander skoraði fimm mörk í sigrinum á Wetzlar. vísir/epa
Alexander Petersson var markahæstur í liði Rhein-Neckar Löwen sem vann fjögurra marka sigur, 24-20, á Wetzlar í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Alexander skoraði fimm mörk, líkt og svissneski leikstjórnandinn Andy Schmid. Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson skoraði tvö mörk.

Þetta var fimmti sigur Ljónanna frá Mannheim í röð en þau sitja í 4. sæti deildarinnar með 16 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Flensburg sem hefur unnið alla níu leiki sína til þessa.

Füchse Berlin varð af mikilvægu stigi í toppbaráttunni er liðið gerði jafntefli, 29-29, við Madgeburg á útivelli.

Sænski hornamaðurinn Mattias Zachrisson kom Berlínarrefunum yfir, 28-29, þegar hálf mínúta var eftir. En Christian O'Sullivan tryggði Magdeburg annað stigið þegar hann jafnaði metin sjö sekúndum fyrir leikslok.

Bjarki Már Elísson var markahæstur í liði Füchse Berlin með sjö mörk. Tvö þeirra komu úr vítaköstum.

Erlingur Richardsson þjálfar Füchse Berlin sem er í 3. sæti deildarinnar með 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×