Handbolti

Tíu skraufþurrar mínútur voru dýrkeyptar fyrir lið Alfreðs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Vísir/Getty
Útivallarvandræði Alfreðs Gíslasonar og lærisveina hans í THW Kiel í Meistaradeildinni héldu áfram í kvöld. Kiel mistókst að koma með tvö stig heim frá Póllandi úr leik á móti næstneðsta liði riðilsins.  

Orlen Wisla Plock vann þá tveggja marka heimasigur á Kiel, 24-22, en þýska liðið var marki yfir í hálfleik. Kiel hefur þar með tapað þremur af fjórum útileikjum sínum í Meistaradeildinni

Þetta leit ágætlega út fyrir liðsmenn Kiel þegar þeir voru tveimur mörkum yfir í seinni hálfleik en þá skoraði Kiel ekki í tíu mínútur og á meðan náði Wisla Plock þriggja marka forskoti sem strákarnir hans Alfreðs náðu aldrei að brúa.

Þetta var fyrsti sigur Wisla Plock í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í vetur en liðið var bara með eitt stig eftir fyrstu fimm leiki sína.

Marko Vujin var markahæstur hjá Kile með 6 mörk en Raúl Santos skoraði 4 mörk. Sime Ivic skoraði 6 mörk fyrir Wisla.

Kiel lenti 4-2 undir eftir níu mínútna leik en Pólverjarnir breyttu þá stöðunni snögglega með því að skora þrjú mörk í röð.

Leikmenn Wisla Plock voru með frumkvæðið þangað til Kiel komst aftur yfir í 10-9 en Kiel var síðan einu marki yfir í hálfleik, 13-12, eftir að hvorugu liðinu tókst að skora á síðustu fjórum mínútum hálfleiksins.

Kiel náði strax tveggja marka forystu í upphafi seinni hálfleiks en liðið var samt ekki lengi skrefinu á undan.

Pólverjarnir skoruðu fimm mörk í röð og breyttu stöðunni úr 15-17 í 20-17 þar sem Kiel skoraði ekki í tíu mínútur. Alfreð tók þá leikhlé þegar níu mínútur voru eftir og Kiel minnkaði muninn strax í eitt mark.

Nær komust leikmenn Kiel ekki og liðsmenn Wisla Plock lönduðu sigri. Spennan hélst út leikinn en þýska liðið náði ekki að bjarga stigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×