Handbolti

Birna Berg skein skært á móti Sola

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haralsdóttir er að spila vel með Glassverket.
Birna Berg Haralsdóttir er að spila vel með Glassverket. Vísir/Getty
Íslenska landsliðskonan Birna Berg Haralsdóttir fór á kostum í kvöld þegar lið hennar Glassverket vann öruggan útisigur á Sola í norsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Glassverket vann leikinn með níu marka mun, 33-24, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik.

Birna Berg Haralsdóttir skoraði níu mörk í leiknum og var markahæst í liði Glassverket sem vann þarna sinn fyrsta útileik í norsku deildinni síðan í september.

Birna Berg skoraði fimm mörk utan af velli en fjögur marka hennar komu af vítapunktinum.

Glassverket byrjaði leikinn vel með Birnu Berg í fararbroddi en hún skoraði fjögur mörk liðsins í röð og hjálpaði Glassverket liðinu að ná 7-4 forystu eftir ellefu mínútna leik.

Birna Berg skoraði alls sex mörk í fyrri hálfleiknum og Glassverket liðið leiddi með sjö mörkum eftir fyrri hálfleikinn, 20-13.

Birna Berg bætti við þremur mörkum í seinni hálfleiknum þar sem Glassverket var með forystuna allan tímann. Á endanum munaði síðan mörkunum hennar níu á liðunum.

Birna Berg er búin að skora 41 mark í fyrstu 8 deildarleikjum Glassverket eða 5,1 mark að meðaltali í leik.


Tengdar fréttir

Axel velur fyrsta hópinn sinn

Axel Stefánsson, þjálfari A-landsliðs kvenna í handbolta, hefur valið 17 leikmenn sem taka þátt í æfingum og móti í Póllandi dagana 4.-9. október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×