Handbolti

Karen markahæst hjá Nice í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. vísir/vilhelm
Íslendingaliðið Nice varð að sætta sig við þriðja tapið í röð í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Nice tapaði þá með sex marka mun á útivelli á móti Metz, 30-24, eftir að hafa verið fjórum mörkum undir í hálfleik, 17-13.

Karen Knútsdóttir var markahæst í liði Nice með sex mörk úr tíu skotum. Nice fékk níu íslensk mörk í kvöld því landsliðslínumaðurinn Arna Sif Pálsdóttir skoraði 3 mörk úr 3 skotum í leiknum.

Karen spilaði í 42 mínútur í kvöld en Arna Sif fékk að spreyta sig í 39 mínútur.

Metz-liðið skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins og var komið í 5-1 eftir aðeins sex mínútna leik.

Karen skoraði þrjú mörk á tólf mínútna kafla og hjálpaði að koma muninum niður í tvö mörk, 13-11, en leikmenn Metz gáfu þá aftur í og komust í 17-13 fyrir hálfleik.

Karen minnkaði muninn í eitt mark, 18-17, þegar sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum en nær komust Nice-stelpurnar ekki. Metz-liðið gaf aftur í og vann frekar öruggan sigur á endanum.

Nice er í 9. sæti af 11 liðum með 11 stig í fyrstu 14 leikjum sínum. Metx er í þriðja sæti eftir sigurinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×