Innlent

Mennirnir fundnir heilir á húfi

Bjarki Ármannsson skrifar
Skytturnar héldu til veiða frá Slitvindastöðum í Staðarsveit.
Skytturnar héldu til veiða frá Slitvindastöðum í Staðarsveit. Vísir/Loftmyndir
Rjúpnaskytturnar tvær sem leitað hefur verið á Snæfellsnesi frá því í gærkvöldi fundust heilar á húfi rétt fyrir klukkan tvö í dag. Mennirnir eru þokkalega á sig komnir miðað við aðstæður en bæði blautir og kaldir.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg höfðu mennirnir leitað sér skjóls undan veðrinu ofarlega í hlíðum Gráborgar, ofan Hestdala sem ganga inn af Kolgrafarfirði.

Mennirnir höfðu verið í sambandi við Neyðarlínuna í dag en vissu ekki hvar þeir voru niðurkomnir. Þeir gerðu björgunarsveitafólki vart við sig með því að blása reglulega í neyðarflautu sem þeir höfðu meðferðis.

Leitarskilyrði voru léleg í dag, lítið skyggni og leiðinlegt veður. Gera má ráð fyrir því að það taki nokkrar klukkustundir að komast aftur til byggða miðað við aðstæður á leitarsvæðinu. Alls komu rúmlega tvö hundruð manns að leitinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×