Körfubolti

Þrumutroðslu Russell Westbrook frá því í nótt verða allir að sjá | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook.
Russell Westbrook. Vísir/Getty
Russell Westbrook innsiglaði sigur Oklahoma City Thunder í NBA-nótt með afgerandi hætti. Þessi frábæri bakvörður kórónaði flottan leik með einni af troðslum tímabilsins.

Troðsla Russell Westbrook í nótt nokkrum sekúndum fyrir lokin á leik Oklahoma City Thunder og Houston Rockets er þegar orðin ein af flottustu tilþrifum tímabilsins.

Það verður erfitt að velta henni úr sessi enda þvílík tilþrif á úrslitastundu og leikmaður að sýna íþróttahæfileika sína í öðru veldi.

Það sem gerði þessa þrumutroðslu enn merkilegri er að Russell Westbrook var þarna að troða með vinstri hendi og yfir hinn 208 sentímetra háa miðherja Houston liðsins Clint Capela.

Russell Westbrook endaði leikinn með 30 stig, 7 fráköst og 9 stoðsendingar og það ótrúlega við það er að þessar tölur lækkuðu meðaltalið hans á tímabilinu.

„Ég sagði við Vic fyrir leikinn að ég ætlaði að ná vinstri handar troðslu í leiknum, vissi bara ekki hvenær,“ sagði  Russell Westbrook eftir leikinn og bætti við: „Það má segja að ég hafi geymt það besta þar til síðast,“ sagði Westbrook brosandi.

Liðsfélagi hans Victor Oladipo staðfesti það við bandaríska fjölmiðlamenn að Westbrook hafi vissulega lofaði þessu fyrir leikinn.

Hvort að Russell Westbrook sé mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar er efni í góða umræðu en það geta fáir NBA-áhugamenn mótmælt því að hann sé einn sá allra skemmtilegasti.

Það er alltaf von á einhverju góðu þegar kemur að Russell Westbrook enda líklega sá eini sem ákveður að troða yfir 208 sentímetra miðherja eftir innkastkerfi á lokasekúndum í æsispennandi leik og það sem meira er - nota vinstri í verkið.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af þessari þrumutroðslu Russell Westbrook í nótt.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×