Innlent

Spá stórhríðarveðri á Norðurlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Von er á mikilli snjókomu og skafrenningi allt frá Steingrímsfjarðarheiði og Klettshálsi um Holtavörðuheiði og austur um Mývatns- og Möðrudalsöræfi.
Von er á mikilli snjókomu og skafrenningi allt frá Steingrímsfjarðarheiði og Klettshálsi um Holtavörðuheiði og austur um Mývatns- og Möðrudalsöræfi. Vísir/Auðunn
Spáð er stórhríðarveðri um landið norðanvert í kvöld og í nótt. Von er á mikilli snjókomu og skafrenningi allt frá Steingrímsfjarðarheiði og Klettshálsi um Holtavörðuheiði og austur um Mývatns- og Möðrudalsöræfi.

Mestan snjó setur niður í Skagafirði og Eyjafirði, en bleytusnjór verður sums staðar á láglendi, einkum við sjávarsíðuna.

Veðurhæð er vaxandi í nótt og verður víða 15 til 20 metra vindur í fyrramálið. Hiti verður í kringum frostmark.

Veðurhorfur næstu daga:

Á föstudag: Norðan og norðvestan 13-18 m/s, en 18-23 í vindstrengjum suðaustantil á landinu. Þurrt að kalla sunnanlands, en snjókoma um landið norðanvert. Talsverð ofankoma á Norðurlandi um kvöldið. Frost 0 til 4 stig, en hiti rétt ofan frostmarks við austurströndina.

Á laugardag: Norðan 10-15 og él, en bjartviðri um landið sunnanvert. Dregur smám saman úr vindi og úrkomu seinnipartinn. Hiti kringum frostmark.

Á sunnudag: Norðlæg eða breytileg átt 3-8 og víða bjart veður, en norðvestan 8-13 og dálítil él með austurströndinni. Frost 1 til 9 stig, mest í innsveitum. 

Á mánudag: Fremur hæg breytileg átt. Allvíða dálítil él við sjávarsíðuna, en bjart inn til landsins. Frost 1 til 13 stig, kaldast í innsveitum. 

Á þriðjudag: Norðaustan 5-13 og él um landið norðan- og austanvert, en bjartviðri suðvestantil. Frost 1 til 8 stig. 

Á miðvikudag: Hæg breytileg átt og bjart veður, en dálítil él norðanlands. Áfram kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×