Leitin að rjúpnaskyttunni sem týndist ofan við Einarsstaði á Héraði í fyrrakvöld hefur engan árangur borðið. Fáir leitarmenn voru úti í nótt en leit fer aftur á fullt í birtingu. Unnið var að því í gærkvöldi og nótt að kortleggja nákvæmlega hvaða svæði búið var að leita og unnið að skipulagningu fyrir leitina í dag.
Til stendur að hefja leitina aftur í birtingu.
Nokkrir björgunarsveitarmenn stóðu vaktina í nótt nærri þeim stað sem maðurinn sást síðast sem svokallaðir „vitar“ en það þýðir að menn standa úti með ljós og eru sýnilegir. Auk þess voru nokkrir björgunarsveitarbílar á ferð um nálæga vegi og slóða. Um 440 björgunarsveitarmenn taka þátt í leitinni.
„Áhersla verður áfram lögð á það að leita í kringum staðinn þar sem rjúpnaskyttan kvaddi félaga sína og fer til baka. Þyrlan kemst væntanlega á loft á eftir því að veðurútlitið er betra í dag en í gær. Það er komin hitamyndavél sem hefur verið sett á þyrluna og fer með í flug núna með morgninum,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
Snjóflóðahætta er metin á leitarsvæðinu.
„Okkar fólk er mjög meðvitað um það og leitin og skipulagið tekur mið af því. Hópar eru með sjófljóðaýlur og þann viðbúnað sem þarf.“
Rjúpnaskyttan er enn ófundin

Tengdar fréttir

Rjúpnaskyttu leitað á Austurlandi
Björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið kallaðar út til leitar að rjúpnaskyttu sem saknað er við Einarsstaði.

Rjúpnaskyttu leitað í alla nótt
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa í alla nótt leitað manns sem gekk í gær til rjúpna austur á Héraði.

Rjúpnaskyttan ekki með farsíma meðferðis
Leit þyrlu Landhelgisgæslunnar haldið áfram þegar veður leyfir.

Fimmtíu leitarmenn með hunda og tonn af björgunarbúnaði á leið austur
Fimmtíu björgunarsveitarmenn fóru nú laust fyrir hádegi með flugi frá Reykjavík til Egilsstaða til þess að taka þátt í leit að rjúpnaskyttu sem staðið hefur yfir frá því í gærkvöldi.