Körfubolti

Einar Árni: Erum í fallbaráttu

Ingvi Þór Sæmundsson í Icelandic Glacial höllinni skrifar
Einar Árni og strákarnir hans hafa tapað fimm leikjum í röð.
Einar Árni og strákarnir hans hafa tapað fimm leikjum í röð. vísir/anton
Það var þungt hljóðið í Einari Árna Jóhannsyni, þjálfara Þórs Þ., eftir tapið fyrir Skallagrími í kvöld. Þetta var fimmta tap Þórsara í röð og Einar Árni segir að þeir séu komnir í fallbaráttu.

„Þetta eru mikil vonbrigði. Þetta er framhald frá síðustu vikum,“ sagði Einar Árni sem var ekki nógu sáttur með spilamennsku sinna manna í kvöld.

„Það var einhvern veginn meiri kraftur í þeim. Mér fannst við gera vel í koma til baka og vorum fjórum stigum yfir þegar tvær mínútur voru eftir. En við gerum fullt af mistökum og tökum þriggja stiga skot þegar við áttum að fara á körfuna.“

Sóknarleikur Þórs var slakur í kvöld en til marks um það skoraði liðið aðeins eina þriggja stiga körfu og gaf aðeins fimm stoðsendingar í öllum leiknum.

„Sóknarleikur og höfuðið á okkur er það sem við þurfum að hugsa mest um fyrir næsta leik. Þeir skoruðu 76 stig og á okkar heimavelli á það að duga,“ sagði Einar Árni.

Þjálfarinn segir að Þórsarar verði núna að horfast í augu við stöðuna, að þeir eru í fallbaráttu.

„Þetta er bara staðan, við erum ekki betri en þetta í dag. Við erum bara í fallbaráttu, þótt hún sé breið og mikil. Ef það hefur verið að plaga okkur að menn töluðu vel um okkur í upphafi, þá getum við hætt að bera það á öxlunum,“ sagði Einar Árni.

„Eins og staðan er núna hefur enginn trú á okkur, enda erum við ekki að spila vel. Bikarleikurinn gegn Keflavík fær mann til að hugsa um Jekyll og Hyde. Við nálguðumst verkefnin á ólíkan hátt. Þar var mikil stemmning og við fengum mikið liðsframlag en hérna duttum við niður á plan sem við höfum oft sýnt á undanförnum vikum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×