Körfubolti

Körfuboltakvöld: Tinki Winki er ekki í liðinu og hvar er Pó?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það skapaðist ansi lífleg umræða um stöðu Njarðvíkur í Domino's-deild karla í Körfuboltakvöldi á föstudagskvöld. Lokaþáttur ársins var þá sýndur í beinni útsendingu frá Hótel Borg.

Njarðvík tapaði síðustu þremur leikjum ársins og fer í jólafríið í fallsæti. Til að bæta gráu á svart staðfesti Gunnar Örlygsson við Vísi í dag að hann muni hætta sem formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur um áramótin.

Helsta gagnrýnin sem Njarðvík hefur fengið á sig er að liðið er ekki með stóran bandarískan miðherja. Jeremy Atkinson kom til Njarðvíkur í haust og bakvörðurinn Stefan Bonneau fór stuttu síðar en Gunnar staðfesti við Vísi í dag að von væri á stórum erlendum leikmanni á nýju ári.

„Þetta lið er ekki að ganga upp. Það er galið að gera ráð fyrir því að lið sem er með 186 cm meðalhæð geti gert eitthvað. Þeir munu falla ef ekkert verður gert,“ sagði Kristinn Geir Friðriksson, einn sérfræðinga þáttarins.

Þáttarstjórnandinn Kjartan Atli Kjartansson líkti Njarðvíkurliðinu við Stubbana, barnaþættina þekktu. Kristinn Geir var fljótur að grípa það á lofti.

„Tinki Winki er ekki einu sinni í liðinu. Og Pó! Hvar er Pó?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×