Körfubolti

Haukar engin fyrirstaða fyrir Skallagrím

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nýliðar Skallagríms sitja í 3. sæti Domino's deildar kvenna eftir 12 umferðir.
Nýliðar Skallagríms sitja í 3. sæti Domino's deildar kvenna eftir 12 umferðir. vísir/anton
Skallagrímur kjöldró Hauka þegar liðin mættust í lokaleik 12. umferðar Domino's deildar kvenna í körfubolta í kvöld. Lokatölur 38-74, Skallagrími í vil.

Sóknarleikur Hauka var afar slakur í kvöld en liðið skoraði aðeins 38 stig á 40 mínútum og var með 20% skotnýtingu. Það var því nóg af fráköstum í boði en leikmenn Skallagríms tóku 67 slík í leiknum.

Tavelyn Tilmann var stigahæst í liði Borgnesinga með 24 stig. Kristrún Sigurjónsdóttir átti einnig skínandi leik en hún skilaði 16 stigum, átta fráköstum og sex stoðsendingum. Þá skoraði Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 12 stig og tók 16 fráköst.

Kelia Shelton skoraði 12 stig og tók 10 fráköst í liði Hauka sem situr á botni deildarinnar með sex stig.

Skallagrímur er hins vegar í 3. sætinu með 16 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×