Innlent

Varað við vonskuveðri á austanverðu landinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Úrkomuspá Veðurstofu Íslands fyrir klukkan 06 á mánudagsmorgun.
Úrkomuspá Veðurstofu Íslands fyrir klukkan 06 á mánudagsmorgun. vedur.is
Veðurstofa Íslands reiknar með talsverðri slyddu eða snjókomu á Norðausturlandi seint í nótt og fram yfir hádegi. Þá er búist við vonskuveðri á austanverðu landinu í fyrramálið og fram eftir morgundeginum, éljagangi, vestanstormi eða roki með vindhviðum allt að 40 metrar á sekúndu á Öræfum og norður með norðausturströndinni að skjálfanda.

Heldur hægara og úrkomuminna vestanlands. Dregur smám saman úr vindi og éljum seinni partinn á morgun, 10 til 18 metrar á sekúndu, og dálítil él seint annað kvöld. Hvassast á annesjum norðan- og austan til. Kólnandi veður og hiti 0 til 5 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á þriðjudag:

Gengur í suðaustan 13-20 með rigningu. Hægari og þurrt NA-til. Vægt frost norðaustantil fram eftir degi, en annars hiti 1 til 8 stig.

Á miðvikudag:

Allhvöss suðlæg átt og talsverð rigning, en snýst í suðvestan 8-13 með skúrum og síðar éljum eftir hádegi. Léttir til norðan- og austantil um kvöldið. Kólnandi veður og hiti kringum frostmark um kvöldið.

Á fimmtudag:

Gengur í suðaustan hvassviðri eða storm með talsverðri slyddu eða rigningu og hlýnar í veðri. Lengst af úrkomulítið norðantil.

Á föstudag:

Suðvestlæg átt. Stöku skúrir eða él og hiti um og yfir frostmarki. Útlit fyrir vaxandi sunnan átt með rigningu og hlýnandi veðri um kvöldið.

Á laugardag:

Útlit fyrir suðlæga átt. Víða rigning og milt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×