Innlent

Hálka víðast hvar

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm
Leiðindaveður verður um landið vestan- og norðvestanvert í meira og minna allan dag, stormur með þéttum og dimmum éljum frá Mýrdal og norður í Skagafjörð. Gerða má ráð fyrir að vindur slái í allt að 28 metra á sekúndu í hryðjunum. Þá eykst skafrenningur smám saman og á það meðal annars við um Hellisheiði og Holtavörðuheiði, þar sem suðvestanáttin er oft hvimleið.

Lægir heldur suðvestanlands síðdegis en ekki fyrr en seint í kvöld á Vesturlandi, Vestfjörðum og norðanlands.

Hálka er á Hellisheiði, hvasst og skafrenningur, að því er segir á vef Vegagerðarinnar. Hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum á Suðurlandi og sums staðar skefur. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og Suðurnesjum, og hvasst.

Á Vesturlandi er víða éljagangur eða snjókoma og hvasst en þó er víða autt eða aðeins hálkublettir. Stórhríð er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku, og hált. Eins er hálka á Svínadal en snjóþekja á Laxárdalsheiði.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Vestfjörðum, þó þæfingur á Klettshálsi. Á sunnanverðum kjálkanum er sums staðar gríðarlega hvasst. Stórhríð er á Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdáni, og eins á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Það er fært norður í Árneshrepp.

Á Norðurlandi er víða ofankoma og allvíða nokkur hálka eða snjóþekja. Mjög hvasst er á köflum við utanverðan Skagafjörð og á Siglufjarðarvegi. Þverárfjall er ófært og þar er stórhríð.

Hálka er á köflum á Austurlandi, einkum á Héraði. Með suðausturströndinni er mikið autt þótt sums staðar séu hálkublettir og raunar snjóþekja á kafla fyrir vestan Klaustur.

Frekari upplýsingar um færð á vegum eru að finna á vef Vegagerðarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×