Körfubolti

Eldræða Fannars um Tryggva Snæ: „Hann á ekki að vera hér í eina mínútu í viðbót“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Hann á að fara út ekki seinna en í gær,“ segir Fannar Ólafsson, fyrrverandi landsliðsmiðherji í körfubolta og sérfræðingur Domino´s-körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport HD, um Tryggva Snæ Hlinason, miðherja Þórs og íslenska landsliðsins.

Fannar hélt mikla eldræðu í jólaþætti Körfuboltakvölds um stöðu risans unga og fór ekki leynt með það að hann vill sjá hann fara út í atvinnumennsku eins fljótt og hægt er. Fannar segist vita að stórlið vilji fá Tryggva til sín.

„Það eru risastór lið í Evrópu sem vilja fá Tryggva nú þegar út. Ég veit að einn stærsti umboðsmaður Evrópu heimsótti Ísland fyrir ekki mjög löngu síðan. Hann kom á síðustu þremur dögum hingað og það gerist mjög sjaldan,“ segir fannar.

„Það sem mig langar til að benda á er að drengurinn á ekki að vera hérna. Hann er í bakkaradeild og er að spila 20 mínútur í leik.“

Staða Tryggva Snæs hjá Þórsliðinu var greind ítarlega í þættinum en þar kom fram að mínútum hans, stigum og framlagspunktum fer fækkandi. Ekki jákvæð þróun hjá einum allra mest spennandi leikmanni þjóðarinnar.

„Hann gæti verið valinn í nýliðavalinu í NBA á næsta ári. Ég held að fólk skilji þetta ekki. Hann er tveir og sextán. Þú kennir ekki stærð eða styrk eða hvernig hann getur hreyft sig. Fólk áttar sig ekki á því hvað er að gerast með drenginn. Hann á ekki að vera eina mínútu hérna í viðbót,“ segir Fannar.

„Tryggvi er að fara að búa sér til, ef hann hefur löngun til, ofboðslega flottan feril. Það er ekki þannig að svona stórir umboðsmenn komi hingað heim til Íslands og fari yfir svona mál með leikmönnum. Þetta er risastórt. Þetta er miklu stærra en við áttum okkur á,“ segir Fannar Ólafsson.

Alla umræðuna og eldmessu Fannars má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×