Handbolti

Birna Berg markahæst þegar Glassverket fór upp í annað sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir.
Birna Berg Haraldsdóttir. Vísir/Getty
Birna Berg Haraldsdóttir var atkvæðamikil í kvöld þegar Glassverket vann eins marks sigur á Vipers Kristiansand í baráttu tveggja Íslendingaliða um annað sætið í norsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Glassverket vann leikinn 23-22 á heimavelli sínum eftir að hafa verið 11-10 yfir í hálfleik. Með sigrinum tók Glassverket annað sætið af Våg-liðinu.  Íslensku landsliðskonurnar Birna Berg Haraldsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir mættust þarna en þær spila saman á hægri vængnum í landsliðinu.

Bæði liðin voru búin að vinna tvo leiki í röð en Glassverket var einu stigi á eftir. Glassverket er nú einu stigi á eftir toppliði Larvik sem á reyndar leik inni. Larvik er með 16 stig, Glassverket með 15 stig og Våg-liðið er síðan með 14 stig.

Birna Berg Haraldsdóttir skoraði sjö mörk í kvöld og var langmarkahæst í liði Glassverket. Þórey Rósa Stefánsdóttir, sem spilar með Våg, nýtti eina skotið sitt í leiknum.

Birna Berg ætlaði sér stóra hluti í kvöld en hún var búin að taka fimm skot eftir aðeins tíu mínútna leik.  Hún þurfti 18 skot til að skora mörkin sín sjö.  Fjögur marka hennar komu af vítalínunni en hin með þrumuskotum.

Vipers byrjaði þó betur og komst í 6-3 í upphafi leiks en tvö mörk Birnu Berg hjálpuðu Glassverket að snúa við blaðinu og komast í 11-8 eftir 26 mínútur.

Birna Berg var komin með fjögur mörk í hálfleik og bætti síðan við þremur mörkum í seinni hálfleiknum.

Mark Þóreyju Rósu kom eftir tæpar 19 mínútur í seinni hálfleik þegar hún minnkaði muninn í 19-17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×