Sigríður María S Sigurðardóttir var á skotskónum þegar KR vann 5-1 stórsigur á HK/Víkingi í fyrsta leik liðanna í Reykjavíkurmóti kvenna í fótbolta í gær.
Sigríður María skoraði þrennu í leiknum og breytti þá stöðunni úr 1-1 í 4-1 en eftir þessi þrjú mörk hennar voru úrslitin ráðin.
Það er einmitt Sigríði Maríu S Sigurðardóttur að þakka að KR spilar í Pepsi-deildinni í sumar. Hún skoraði sigurmark KR upp á Skaga í lokaumferðinni en markið, sem kom þrettán mínútum fyrir leikslok, bjargaði Vesturbæjarliðinu frá falli.
Sara Lissy Chontosh kom KR í 1-0 á 20. mínútu en jafnaði fyrir HK/Víking aðeins mínútu síðar.
Þrenna Sigríðar Maríu kom á 25 mínútna kafla frá 31. til 56. mínútu en hún skoraði tvö mörk á síðustu fjórtán mínútum fyrri hálfleiksins.
Katrín Ómarsdóttir lék sinn fyrsta leik með KR frá 2009 og hún hélt upp á það með því að innsigla sigurinn á 79. mínútu.
Sigríður María S Sigurðardóttir er tvítug en er engu að síður að hefja sitt sjötta tímabil með meistaraflokki. Hún spilaði tvo leiki í Pepsi-deildinni 2012 og hefur síðan verið í stóru hlutverki frá árinu 2013.
Sigríður María skoraði 4 mörk í 14 leikjum í Pepsi-deild kvenna í fyrra og var markahæsti leikmaður KR-liðsins ásamt Ásdísi Karen Halldórsdóttur.
