Handbolti

Þjálfari Rutar: Auðvitað skiptir það líka máli hvað hún er góð stelpa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rut Jónsdóttir í leik með FC Midtjylland.
Rut Jónsdóttir í leik með FC Midtjylland. Vísir/Getty
Íslenska landsliðskonan Rut Jónsdóttir hefur fengið stórt hlutverk með Meistaradeildarliðinu FC Midtjylland að undanförnu en hún er nú eina íslenska handknattleikskonan sem er enn með í Meistaradeildinni.

Rut byrjaði sitt fyrsta tímabil með FC Midtjylland sem varamaður en fékk tækifæri í byrjunarliðinu eftir að danska landsliðskonan Louise Burgaard meiddist.

Heimasíða Meistaradeildarinn tók Rut og þjálfara hennar í viðtal. Rut var ein af þremur íslenskum leikmönnum í Meistaradeild kvenna í vetur en lið þeirra Hildigunnar Einarsdóttur (HC Leipzig) og Birnu Berg Haraldsdóttur (Glassverket) eru úr leik.

„Það er virkilega skemmtilegt að það gangi svona vel á mínu fyrsta tímabili hér í Midtjylland. Við erum búnar að vinna alla okkar heimaleiki í Meistaradeildinni sem við bjuggumst alls ekki við. Það er mjög gaman að fá að vera hluti af þessu og geta líka hjálpa til,“ sagði Rut sem kom til FC Midtjylland í sumar frá Randers HK.

Margt breyttist þegar Louise Burgaard meiddist en þá fékk Rut mun stærra hlutverk í liðinu

„Það var mikil áskorun en um leið mikill heiður. Ég fann ekkert meiri pressu því allir liðsfélagarnir voru svo almennilegir og hjálplegir,“ sagði Rut.

„Upphaflega var Rut fengin hingað til að auka breiddina bæði í hægri bakvarðarstöðunni og í hægra horninu. Eftir að Louise Burgaard meiddist var henni hent út í djúpu laugina og hún leysti það mjög vel,“ sagði þjálfari hennar Kristian Kristensen.

„Hún er kannski ekki þessi leikmaður sem eru að skora af níu eða tíu metrum en hún nýtir sín færi mjög vel af sjö og átta metrum. Það gerir hana enn dýrmætari fyrir okkur að hún getur einnig spilað í horninu,“ sagði Kristian Kristensen og bætti við:

„Auðvitað skiptir það líka máli hvað hún er góð stelpa bæði innan sem utan vallar,“ sagði Kristensen.

Það má lesa meira af viðtalinu við Rut og hvað er framundan hjá hennar liði Meistaradeildinni með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×