Innlent

Víða þungbúið í dag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Lægðardrag er yfir landinu og víða þungbúið.
Lægðardrag er yfir landinu og víða þungbúið. vísir/vilhelm
Lægðardrag er yfir landinu og víða þungbúið, en vindur er hægur að mestu. Vestanhafs hefur þokuloftið látið á sér kræla og verður áfram viðloðandi fram á daginn, segir í hugleiðingum veðurfræðings sem birtar eru á vef Veðurstofunnar.

Þar segir að austan megin á landinu verði úrkomumeira fram yfir hádegi, súld eða rigning, en slydda inn til landsins. Hiti í dag verður frá frostmarki í innsveitum norðaustanlands, upp í 8 stig á Suðausturlandi.

Í nótt verður víða úrkoma frá skilum næstu lægðar. Spár gera ráð fyrir að lægðin sjálf fari yfir landið á morgun og blæs þá vindur af ýmsum áttum. Um verður að ræða strekkingsvind þar sem mest lætur en það þykir ekki mikið á þessum tíma. Þá segir veðurfræðingurinn að áfram verði þungbúið með úrkomu á morgun, á sunnanverðu landinu rigning af og til og hiti 3 til 8 stig, en slydda eða snjókoma norðantil með hita um frostmark.

Veðurhorfur á landinu

Hæg breytileg átt í dag, skýjað og sums staðar þokuloft. Norðaustan 5-10 m/s austanlands fram eftir degi og súld eða rigning. Hiti 0 til 8 stig, mildast á Suðausturlandi.

Víða úrkoma á landinu í nótt. Vestan 8-15 á morgun, rigning með köflum og hiti 3 til 8 stig. Hægari breytileg átt norðantil á landinu og slydda eða snjókoma með hita um frostmark.

Á sunnudag:

Vestan 8-15 m/s og rigning með köflum, en hægari vindur undir kvöld og úrkomulítið. Hiti 3 til 8 stig. Austlæg átt 3-10 norðantil á landinu og lengst af slydda eða snjókoma með hita nálægt frostmarki.

Á mánudag:

Suðvestlæg eða breytileg átt 5-13 m/s. Él í flestum landshlutum, einkum þó suðvestanlands. Hiti um og yfir frostmarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×