„Við Vestmannaeyingar höfum aldrei fengið áfallahjálp“ Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar 1. apríl 2017 08:45 "Með tímanum fór fólkið í Eyjum að sjá fegurðina í þessu verkefni,“ segir Kristín og á þar við gosminjasafnið. Fréttablaðið/Eyþór Árnason Það er óneitanlega magnað að koma í Eldheima í Vestmannaeyjum og fá sögu Heimaeyjargossins beint í æð gegnum margs konar miðla. Heyra drunurnar, sjá hraunsletturnar og koma við húsið sem eitt sinn var heimili fimm manna fjölskyldu en fór undir 14 metra þykkt öskulag, eins og svo mörg önnur, og allt sem í því var, nema fólkið. Á leið gegnum sýninguna með söguna í eyrunum, sagða með hinni viðkunnanlegu rödd Eddu Andrésar, er auðvelt að vikna, einkum vegna þakklætis fyrir þá mildi að öll mannslífin, 5.300 talsins, skyldu bjargast hamfaranóttina 23. janúar 1973 þegar gosið hófst. Að lokinni göngu um húsið, líka upp á loft þar sem Surtsey er í aðalhlutverki, er Kristín Jóhannsdóttir forstöðumaður tekin tali milli þess sem hún afgreiðir gesti. „Við opnuðum hér vorið 2014. Í fyrra komu hingað 37 þúsund manns, yfir sjó og land, þessi fjöldi kom að langmestu leyti frá byrjun maí og fram í september en svo missum við allan ferðamannastraum þegar Landeyjahöfn lokast og markaðssetning er erfið þegar ferðir um hana eru bara með höppum og glöppum,“ lýsir Kristín. „Hápunktur sýningarinnar er rústin að Gerðisbraut 10, hvergi í heiminum hafa verið grafnar upp jafn ungar rústir til að varðveita og sýna.“ Brugðist við eftir brjóstvitinu Kristín var þrettán ára þegar Heimaeyjargosið varð og kveðst muna allvel eftir því. „Fjölskylda mín var voða heppin. Pabbi hafði byggt uppi á hól í vesturhluta bæjarins og húsið okkar skaddaðist ekkert. Ég á það núna,“ segir hún og bætir við að foreldrar hennar hafi verið Svanhildur Sigurjónsdóttur hjúkrunarfræðingur og Jóhann Friðfinnsson, verslunarmaður í Drífanda, og börnin í húsinu á hólnum hafi verið fimm, þrír strákar og tvær stelpur. „Það er oft talað um að við Vestmannaeyingar höfum aldrei fengið neina áfallahjálp og höfum verið að vinna úr þessu gosi gegnum lífið. Ég hafði aldrei þá tilfinningu – en samt – ég sagði ekki frá því í 20 ár að ég væri frá Eyjum. Maður er svo viðkvæmur um fermingaraldurinn, krakkar að bjóða manni hraun og gos, komandi með alls konar upplýsingar heiman að frá sér um að við Vestmannaeyingar lifðum á þjóðinni og mér fannst vandræðalegt að hafa verið flóttamaður. Vinir mínir til margra ára sögðu eitt sinn við mig: „Kristín, við vorum að heyra að þú værir frá Vestmannaeyjum.“ Margt væri eflaust gert með öðrum hætti nú ef sambærilegir atburðir yrðu. „Það voru engar viðbragðsáætlanir til eða áfallateymi á þessum tíma,“ segir Kristín. „Menn milli tvítugs og þrítugs sem störfuðu sem bæjartæknifræðingar og fleira í þeim dúr þurftu að taka ákvarðanir á stundinni, enginn tími var fyrir langa fundi. Það var bara brugðist við eftir brjóstvitinu. Hér bjó fólk sem hafði nánast ekki komið til Reykjavíkur. Það átti ekki við um mína fjölskyldu. Mamma var úr Reykjavík og við fórum oft þangað.“ Eitt ár varð að tuttugu Kristín er master í bókmenntafræði og sagnfræði og kveðst eiga dálítið skrautlegan námsferil. „Ég fór til Þýskalands á þýskukúrs og ætlaði bara að vera í hálft ár eða eitt en þau urðu tuttugu. Var fyrst í Freiburg í Suður-Þýskalandi og í stað þess að fara hefðbundna leið til Kölnar, Berlínar eða München, þegar mér var farið að leiðast þar, fór ég til Austur-Þýskalands og rétt náði í rassinn á því landi áður en það var lagt niður. Var í Leipzig 1987 og eftir ævintýralega dvöl þar fór ég til Vestur-Berlínar og mátti ekki seinni vera til að kynnast henni. Ég kláraði námið í Berlín og bjó þar áfram í tíu ár, starfaði meðal annars sem fréttaritari Ríkisútvarpsins, þá fór ég til Frankfurt, því Icelandair bauð mér vinnu sem ég gat ekki hafnað. Þar sá ég um markaðs- og kynningardeild fyrir Ísland og þá fór ég að fatta að þetta gos hér í Eyjum var dálítið spennandi, ekki bara í sögulegu samhengi heldur líka út frá ferða- og markaðshliðinni. Erlendir fréttamenn sem ég ferðaðist með til Íslands í kynningarferðum mundu eftir gosinu og vildu ólmir komast til Eyja. Einhvern tíma í viðtali við þýska sjónvarpsstöð rifjaði ég í fyrsta skipti upp hvernig fjölskyldan hafði það á gosnóttina og hvernig mér hafði liðið. Þá var ég orðin fertug og hafði aldrei pælt í því að nokkur væri spenntur fyrir að heyra það.“ Sýningin skiptist í númeruð svæði og gegnum heyrnartól fá gestir áhrifamikla lýsingu á því sem fyrir augu ber á hverju svæði fyrir sig.Fréttablaðið/Eyþór Árnason Yrsa og Aska gerðu gagn Það var árið 2004 sem Kristín ákvað að flytja heim frá Þýskalandi, þá búin að vera þar í 20 ár. „Ég vildi að strákarnir mínir yrðu Íslendingar,“ útskýrir hún – en bætir við: „Nokkrum árum seinna kom reyndar hrunið og allir svindlararnir poppuðu upp og þá hugsaði maður: Hvað er smart við að vera Íslendingur? En ég sótti um að sjá um ferða- og markaðsmálin fyrir Vestmannaeyjabæ, þá var nú ekki mikið að gerast í þeirri deild, Flugfélag Íslands nýhætt að fljúga hingað eftir áratuga þjónustu og Ernir ekki kominn, Herjólfur sigldi milli Eyja og Þorlákshafnar en Bakkaflugið var svolítið spennandi.“ Hugmyndina að því að grafa hús úr öskunni og hafa til sýnis rekur Kristín til Sigmunds, teiknara og uppfinningamanns. „Sigmund er langflottasti maður sem við Vestmannaeyingar höfum átt,“ segir hún. „Stuttu eftir að ég flutti hingað sýndi hann mér teikningu sem hann kallaði Pompei norðursins, þar var búið að hálfgrafa upp nokkur hús. Mér fannst það bráðsniðug hugmynd, sótti um styrk til Ferðamálaráðs til að ráðast í uppgröft og fékk hæsta styrkinn það árið. Við útbjuggum hér stíg sem lá meðfram hálfuppgröfnum húsum og kölluðum þá sýningu Pompei norðursins. Það var nógu klikkað verkefni til að vekja athygli, við fengum BBC hingað, japanska sjónvarpsstöð, það var gerður sjónvarpsþáttur um málið hjá Arti í Frakklandi og í Þýskalandi og hingað komu blaðamenn frá Der Spiegel. Þetta var upphafið. Við byrjuðum árið 2005. Þá var ferðaþjónusta ekki komin í tísku á Íslandi, við fengum smá kynningarpening frá bankanum okkar en hjá stóru fyrirtækjunum var ekki stemning. Pressan kom áfram utan frá, frá erlendum ferðamönnum, fjölmiðlum og ferðaskrifstofum í Reykjavík en ansi margir Vestmannaeyingar þurftu mörg ár til að sjá tækifærin í þessum hugmyndum, þeim fannst málið jafnvel ósmekklegt og þeir vildu senda mig aftur til Þýskalands.“ Nauðsynlegt að fremja morð Mörg hafa skrefin verið á leið að settu marki að sögn Kristínar. Eitt var stigið þegar Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur mætti í Eyjum með nokkrum útlendingum. „Yrsa fann náttúrlega strax út að hér yrði að fremja morð til að koma þessum bletti á blað. Gerði um það bókina Ösku og hún varð dálítill grunnsteinn að frægð hennar í útlöndum. Búið er að þýða þá bók á fjölmörg tungumál og það eykur aðsókn hjá okkur.“ Jóhann, faðir Kristínar, var safnstjóri byggðasafnsins í Eyjum um tíma. „Pabbi hafði alltaf gríðarlegan áhuga á að reist yrði gosminjasafn, svo maður fari nú aðeins í Freud og alla sem maður treður á bak við sig til að styrkja áhugamálin!“ segir Kristín glaðlega og tekur fram að með tímanum hafi fólkið í Eyjum farið að sjá fegurðina í þessu verkefni. „Bærinn átti peninga frá ríkinu á ís, sem átti að byggja menningarhús fyrir. Það fé hrökk fyrir fjórðungi eða fimmtungi af byggingu Eldheima. Restina greiddi Vestmannaeyjabær og ef heldur fram sem horfir á reksturinn að geta borgað þetta upp á einhverjum x árum,“ lýsir hún. Eitt herbergi í Eldheimum er autt enn. „Hér verður gagnaver,“ upplýsir Kristín. „Við erum í samstarfi við háskólastúdenta sem eru að safna sögum um hvaða áhrif gosið hafði á líf fólks og vangaveltum um hvernig tilveran hér í Eyjum væri ef ekki hefði gosið. Hér bjuggu 5.300 manns svo sögurnar eru margar og mismunandi og þó enginn hafi farist beint af völdum gossins, guði sé lof, þá eru margar sögur átakanlegar. Í framhaldinu verður hægt að slá inn leitarorð, nafn á manneskju eða kennileiti og þá poppar allt upp sem tengist því nafni, bæði myndir og texti.“ Húsið að Gerðisbraut 10 var með steypta plötu undir þakinu og harðviðarpósta í gluggum. Það kom furðu heillegt undan farginu.Fréttablaðið/Eyþór Árnason Öll Eyjabörn til Noregs Nú er Kristín beðin að rifja upp eigin minningar um hamfarirnar og áhrif þeirra á eigið líf. „Mamma var í einni af sínum mörgu Reykjavíkurferðum og með yngstu systur mína með sér þegar gaus. Pabbi vakti mig og bræður mína. Hann gekk um gólf og hrópaði „guð minn góður“, okkur sýndist allt vera að brenna í Austurbænum og mín fyrsta hugsun var: Það er komið stríð. Við vorum jú í miðju kalda stríðinu og mamma og pabbi lásu Moggann og töluðu um Rússana hér allt í kring. Þegar pabbi útskýrði að þetta væri eldgos varð mér mun rórra og velti fyrir mér hvort við þyrftum að fara í skólann. Við vorum alin upp með Surtseyjargosið í grenndinni. Það var hluti af tilverunni því í sunnudagsbíltúrum var fastur liður að horfa þangað. Auðvitað hlýtur að hafa verið angist í huga þeirra sem voru með gosið í garðinum hjá sér en á mínu heimili var engin lífshætta. Svo keyrði pabbi okkur systkinin niður að höfn, fylgdi okkur um borð í Danska Pétur og við fengum frí úr skólanum! Pabbi varð eftir, til að bjarga verðmætum eins og um þrjú hundruð aðrir Eyjamenn. Við krakkarnir fórum niður í lest þar sem fiskurinn er jafnan geymdur og ég var ægilega sjóveik á leiðinni í land. Fjölskylda móðursystur minnar sat uppi með okkur, sex manna fjölskyldu, í margar vikur í lítilli íbúð. Svo fórum við í aðra litla íbúð sem mamma og pabbi áttu í Vesturbænum en var í leigu þegar gaus. Ég fór í strætó þaðan í Laugarnesskóla, því fyrir okkur eldri krakkana úr Eyjum var settur upp Vestmannaeyjaskóli þar og við vorum með kennara úr Eyjum. En litlu krökkunum var bara hent inn í skóla með öðrum á sínum aldri.“ Svekktir Norðmenn Eitt af því sem Kristín rifjar upp frá þessum tíma er Noregsferð Eyjabarna. „Rauði krossinn í Noregi bauð öllum börnum frá Vestmannaeyjum þangað út í tvær vikur, sem var auðvitað voða fallegt og eflaust gott fyrir foreldrana að losna við okkur. En þetta var mikið fyrirtæki og minnstu krakkarnir höfðu svo sem ekkert að gera í þetta ferðalag. Mér fannst það alveg frábært, ég lenti á agalega fínu heimili í Ósló, ásamt krökkum sem ég var ekki í neinu vinfengi við, það var ekkert verið að velja systkini og vini saman. Litli bróðir minn, átta ára, var í sömu ferð og ég og var bara settur upp í einhverja rútu. Hann þoldi það en sumir litlu krakkarnir voru með grátstafinn í kverkunum allan tímann. Norðmenn voru svekktir og hissa á hvað við vorum matvönd, héldu að þarna væru komin langsoltin flóttabörn sem borðuðu hvað sem væri, en það var nú aldeilis ekki. Allt var þetta þó vel meint. Mismunurinn á aðstæðum þá og nú er bara svo mikill. Nú eru foreldrar hringjandi í börnin sín fjórum sinnum á dag en þarna var þeim bara skutlað út á flugvöll, allt niður í sjö, átta ára gömlum, þau voru að fara á einkaheimili til fólks sem enginn vissi hvernig var. Svo voru þau sótt út á völl eftir tvær vikur. En mín ferð varð mjög fín.“ Kristín segir suma Vestmannaeyinga hafa verið komna heim um leið og gosinu lauk, þannig var það ekki hjá hennar fjölskyldu. „Pabbi og mamma þurftu aðeins að díla við það hvort þau ættu að fara aftur til Eyja eða ekki, við bjuggum um tíma í viðlagasjóðshúsi í Kópavoginum, Birkigrundin og Reynigrundin í Fossvogsdalnum voru Eyjagötur. Allt í lagi að vera þar, ég gekk í Víghólaskóla. Svo fluttum við öll hingað aftur en foreldrar mínir skildu nokkru síðar og mamma flutti suður. Ég lauk landsprófi hér, svo var það MH og eftir það fór ég fljótlega til Noregs og svo Þýskalands.“ Nú er hringnum í frásögninni lokað. Kristín sest að á hólnum og stýrir óskaverkefni í Eyjum. „Ég hef átt minn þátt í þessari uppbyggingu á Eldheimum en ef bæjarstjórnin hefði ekki trúað á verkefnið og komið svona myndarlega að því þá hefði ekkert gerst. Nú eru Eldheimar orðnir að veruleika og það er gaman að vera að reka þá, ég legg metnað minn í að það gangi sem best en ég er voðalega pirruð þegar samgöngur til Eyja eru stopular.“ Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl 2017 Herjólfur Vestmannaeyjar Heimaeyjargosið 1973 Mest lesið Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Menning Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Króli trúlofaður Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið Fleiri fréttir Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Frægir fjölguðu sér árið 2024 Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Sjá meira
Það er óneitanlega magnað að koma í Eldheima í Vestmannaeyjum og fá sögu Heimaeyjargossins beint í æð gegnum margs konar miðla. Heyra drunurnar, sjá hraunsletturnar og koma við húsið sem eitt sinn var heimili fimm manna fjölskyldu en fór undir 14 metra þykkt öskulag, eins og svo mörg önnur, og allt sem í því var, nema fólkið. Á leið gegnum sýninguna með söguna í eyrunum, sagða með hinni viðkunnanlegu rödd Eddu Andrésar, er auðvelt að vikna, einkum vegna þakklætis fyrir þá mildi að öll mannslífin, 5.300 talsins, skyldu bjargast hamfaranóttina 23. janúar 1973 þegar gosið hófst. Að lokinni göngu um húsið, líka upp á loft þar sem Surtsey er í aðalhlutverki, er Kristín Jóhannsdóttir forstöðumaður tekin tali milli þess sem hún afgreiðir gesti. „Við opnuðum hér vorið 2014. Í fyrra komu hingað 37 þúsund manns, yfir sjó og land, þessi fjöldi kom að langmestu leyti frá byrjun maí og fram í september en svo missum við allan ferðamannastraum þegar Landeyjahöfn lokast og markaðssetning er erfið þegar ferðir um hana eru bara með höppum og glöppum,“ lýsir Kristín. „Hápunktur sýningarinnar er rústin að Gerðisbraut 10, hvergi í heiminum hafa verið grafnar upp jafn ungar rústir til að varðveita og sýna.“ Brugðist við eftir brjóstvitinu Kristín var þrettán ára þegar Heimaeyjargosið varð og kveðst muna allvel eftir því. „Fjölskylda mín var voða heppin. Pabbi hafði byggt uppi á hól í vesturhluta bæjarins og húsið okkar skaddaðist ekkert. Ég á það núna,“ segir hún og bætir við að foreldrar hennar hafi verið Svanhildur Sigurjónsdóttur hjúkrunarfræðingur og Jóhann Friðfinnsson, verslunarmaður í Drífanda, og börnin í húsinu á hólnum hafi verið fimm, þrír strákar og tvær stelpur. „Það er oft talað um að við Vestmannaeyingar höfum aldrei fengið neina áfallahjálp og höfum verið að vinna úr þessu gosi gegnum lífið. Ég hafði aldrei þá tilfinningu – en samt – ég sagði ekki frá því í 20 ár að ég væri frá Eyjum. Maður er svo viðkvæmur um fermingaraldurinn, krakkar að bjóða manni hraun og gos, komandi með alls konar upplýsingar heiman að frá sér um að við Vestmannaeyingar lifðum á þjóðinni og mér fannst vandræðalegt að hafa verið flóttamaður. Vinir mínir til margra ára sögðu eitt sinn við mig: „Kristín, við vorum að heyra að þú værir frá Vestmannaeyjum.“ Margt væri eflaust gert með öðrum hætti nú ef sambærilegir atburðir yrðu. „Það voru engar viðbragðsáætlanir til eða áfallateymi á þessum tíma,“ segir Kristín. „Menn milli tvítugs og þrítugs sem störfuðu sem bæjartæknifræðingar og fleira í þeim dúr þurftu að taka ákvarðanir á stundinni, enginn tími var fyrir langa fundi. Það var bara brugðist við eftir brjóstvitinu. Hér bjó fólk sem hafði nánast ekki komið til Reykjavíkur. Það átti ekki við um mína fjölskyldu. Mamma var úr Reykjavík og við fórum oft þangað.“ Eitt ár varð að tuttugu Kristín er master í bókmenntafræði og sagnfræði og kveðst eiga dálítið skrautlegan námsferil. „Ég fór til Þýskalands á þýskukúrs og ætlaði bara að vera í hálft ár eða eitt en þau urðu tuttugu. Var fyrst í Freiburg í Suður-Þýskalandi og í stað þess að fara hefðbundna leið til Kölnar, Berlínar eða München, þegar mér var farið að leiðast þar, fór ég til Austur-Þýskalands og rétt náði í rassinn á því landi áður en það var lagt niður. Var í Leipzig 1987 og eftir ævintýralega dvöl þar fór ég til Vestur-Berlínar og mátti ekki seinni vera til að kynnast henni. Ég kláraði námið í Berlín og bjó þar áfram í tíu ár, starfaði meðal annars sem fréttaritari Ríkisútvarpsins, þá fór ég til Frankfurt, því Icelandair bauð mér vinnu sem ég gat ekki hafnað. Þar sá ég um markaðs- og kynningardeild fyrir Ísland og þá fór ég að fatta að þetta gos hér í Eyjum var dálítið spennandi, ekki bara í sögulegu samhengi heldur líka út frá ferða- og markaðshliðinni. Erlendir fréttamenn sem ég ferðaðist með til Íslands í kynningarferðum mundu eftir gosinu og vildu ólmir komast til Eyja. Einhvern tíma í viðtali við þýska sjónvarpsstöð rifjaði ég í fyrsta skipti upp hvernig fjölskyldan hafði það á gosnóttina og hvernig mér hafði liðið. Þá var ég orðin fertug og hafði aldrei pælt í því að nokkur væri spenntur fyrir að heyra það.“ Sýningin skiptist í númeruð svæði og gegnum heyrnartól fá gestir áhrifamikla lýsingu á því sem fyrir augu ber á hverju svæði fyrir sig.Fréttablaðið/Eyþór Árnason Yrsa og Aska gerðu gagn Það var árið 2004 sem Kristín ákvað að flytja heim frá Þýskalandi, þá búin að vera þar í 20 ár. „Ég vildi að strákarnir mínir yrðu Íslendingar,“ útskýrir hún – en bætir við: „Nokkrum árum seinna kom reyndar hrunið og allir svindlararnir poppuðu upp og þá hugsaði maður: Hvað er smart við að vera Íslendingur? En ég sótti um að sjá um ferða- og markaðsmálin fyrir Vestmannaeyjabæ, þá var nú ekki mikið að gerast í þeirri deild, Flugfélag Íslands nýhætt að fljúga hingað eftir áratuga þjónustu og Ernir ekki kominn, Herjólfur sigldi milli Eyja og Þorlákshafnar en Bakkaflugið var svolítið spennandi.“ Hugmyndina að því að grafa hús úr öskunni og hafa til sýnis rekur Kristín til Sigmunds, teiknara og uppfinningamanns. „Sigmund er langflottasti maður sem við Vestmannaeyingar höfum átt,“ segir hún. „Stuttu eftir að ég flutti hingað sýndi hann mér teikningu sem hann kallaði Pompei norðursins, þar var búið að hálfgrafa upp nokkur hús. Mér fannst það bráðsniðug hugmynd, sótti um styrk til Ferðamálaráðs til að ráðast í uppgröft og fékk hæsta styrkinn það árið. Við útbjuggum hér stíg sem lá meðfram hálfuppgröfnum húsum og kölluðum þá sýningu Pompei norðursins. Það var nógu klikkað verkefni til að vekja athygli, við fengum BBC hingað, japanska sjónvarpsstöð, það var gerður sjónvarpsþáttur um málið hjá Arti í Frakklandi og í Þýskalandi og hingað komu blaðamenn frá Der Spiegel. Þetta var upphafið. Við byrjuðum árið 2005. Þá var ferðaþjónusta ekki komin í tísku á Íslandi, við fengum smá kynningarpening frá bankanum okkar en hjá stóru fyrirtækjunum var ekki stemning. Pressan kom áfram utan frá, frá erlendum ferðamönnum, fjölmiðlum og ferðaskrifstofum í Reykjavík en ansi margir Vestmannaeyingar þurftu mörg ár til að sjá tækifærin í þessum hugmyndum, þeim fannst málið jafnvel ósmekklegt og þeir vildu senda mig aftur til Þýskalands.“ Nauðsynlegt að fremja morð Mörg hafa skrefin verið á leið að settu marki að sögn Kristínar. Eitt var stigið þegar Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur mætti í Eyjum með nokkrum útlendingum. „Yrsa fann náttúrlega strax út að hér yrði að fremja morð til að koma þessum bletti á blað. Gerði um það bókina Ösku og hún varð dálítill grunnsteinn að frægð hennar í útlöndum. Búið er að þýða þá bók á fjölmörg tungumál og það eykur aðsókn hjá okkur.“ Jóhann, faðir Kristínar, var safnstjóri byggðasafnsins í Eyjum um tíma. „Pabbi hafði alltaf gríðarlegan áhuga á að reist yrði gosminjasafn, svo maður fari nú aðeins í Freud og alla sem maður treður á bak við sig til að styrkja áhugamálin!“ segir Kristín glaðlega og tekur fram að með tímanum hafi fólkið í Eyjum farið að sjá fegurðina í þessu verkefni. „Bærinn átti peninga frá ríkinu á ís, sem átti að byggja menningarhús fyrir. Það fé hrökk fyrir fjórðungi eða fimmtungi af byggingu Eldheima. Restina greiddi Vestmannaeyjabær og ef heldur fram sem horfir á reksturinn að geta borgað þetta upp á einhverjum x árum,“ lýsir hún. Eitt herbergi í Eldheimum er autt enn. „Hér verður gagnaver,“ upplýsir Kristín. „Við erum í samstarfi við háskólastúdenta sem eru að safna sögum um hvaða áhrif gosið hafði á líf fólks og vangaveltum um hvernig tilveran hér í Eyjum væri ef ekki hefði gosið. Hér bjuggu 5.300 manns svo sögurnar eru margar og mismunandi og þó enginn hafi farist beint af völdum gossins, guði sé lof, þá eru margar sögur átakanlegar. Í framhaldinu verður hægt að slá inn leitarorð, nafn á manneskju eða kennileiti og þá poppar allt upp sem tengist því nafni, bæði myndir og texti.“ Húsið að Gerðisbraut 10 var með steypta plötu undir þakinu og harðviðarpósta í gluggum. Það kom furðu heillegt undan farginu.Fréttablaðið/Eyþór Árnason Öll Eyjabörn til Noregs Nú er Kristín beðin að rifja upp eigin minningar um hamfarirnar og áhrif þeirra á eigið líf. „Mamma var í einni af sínum mörgu Reykjavíkurferðum og með yngstu systur mína með sér þegar gaus. Pabbi vakti mig og bræður mína. Hann gekk um gólf og hrópaði „guð minn góður“, okkur sýndist allt vera að brenna í Austurbænum og mín fyrsta hugsun var: Það er komið stríð. Við vorum jú í miðju kalda stríðinu og mamma og pabbi lásu Moggann og töluðu um Rússana hér allt í kring. Þegar pabbi útskýrði að þetta væri eldgos varð mér mun rórra og velti fyrir mér hvort við þyrftum að fara í skólann. Við vorum alin upp með Surtseyjargosið í grenndinni. Það var hluti af tilverunni því í sunnudagsbíltúrum var fastur liður að horfa þangað. Auðvitað hlýtur að hafa verið angist í huga þeirra sem voru með gosið í garðinum hjá sér en á mínu heimili var engin lífshætta. Svo keyrði pabbi okkur systkinin niður að höfn, fylgdi okkur um borð í Danska Pétur og við fengum frí úr skólanum! Pabbi varð eftir, til að bjarga verðmætum eins og um þrjú hundruð aðrir Eyjamenn. Við krakkarnir fórum niður í lest þar sem fiskurinn er jafnan geymdur og ég var ægilega sjóveik á leiðinni í land. Fjölskylda móðursystur minnar sat uppi með okkur, sex manna fjölskyldu, í margar vikur í lítilli íbúð. Svo fórum við í aðra litla íbúð sem mamma og pabbi áttu í Vesturbænum en var í leigu þegar gaus. Ég fór í strætó þaðan í Laugarnesskóla, því fyrir okkur eldri krakkana úr Eyjum var settur upp Vestmannaeyjaskóli þar og við vorum með kennara úr Eyjum. En litlu krökkunum var bara hent inn í skóla með öðrum á sínum aldri.“ Svekktir Norðmenn Eitt af því sem Kristín rifjar upp frá þessum tíma er Noregsferð Eyjabarna. „Rauði krossinn í Noregi bauð öllum börnum frá Vestmannaeyjum þangað út í tvær vikur, sem var auðvitað voða fallegt og eflaust gott fyrir foreldrana að losna við okkur. En þetta var mikið fyrirtæki og minnstu krakkarnir höfðu svo sem ekkert að gera í þetta ferðalag. Mér fannst það alveg frábært, ég lenti á agalega fínu heimili í Ósló, ásamt krökkum sem ég var ekki í neinu vinfengi við, það var ekkert verið að velja systkini og vini saman. Litli bróðir minn, átta ára, var í sömu ferð og ég og var bara settur upp í einhverja rútu. Hann þoldi það en sumir litlu krakkarnir voru með grátstafinn í kverkunum allan tímann. Norðmenn voru svekktir og hissa á hvað við vorum matvönd, héldu að þarna væru komin langsoltin flóttabörn sem borðuðu hvað sem væri, en það var nú aldeilis ekki. Allt var þetta þó vel meint. Mismunurinn á aðstæðum þá og nú er bara svo mikill. Nú eru foreldrar hringjandi í börnin sín fjórum sinnum á dag en þarna var þeim bara skutlað út á flugvöll, allt niður í sjö, átta ára gömlum, þau voru að fara á einkaheimili til fólks sem enginn vissi hvernig var. Svo voru þau sótt út á völl eftir tvær vikur. En mín ferð varð mjög fín.“ Kristín segir suma Vestmannaeyinga hafa verið komna heim um leið og gosinu lauk, þannig var það ekki hjá hennar fjölskyldu. „Pabbi og mamma þurftu aðeins að díla við það hvort þau ættu að fara aftur til Eyja eða ekki, við bjuggum um tíma í viðlagasjóðshúsi í Kópavoginum, Birkigrundin og Reynigrundin í Fossvogsdalnum voru Eyjagötur. Allt í lagi að vera þar, ég gekk í Víghólaskóla. Svo fluttum við öll hingað aftur en foreldrar mínir skildu nokkru síðar og mamma flutti suður. Ég lauk landsprófi hér, svo var það MH og eftir það fór ég fljótlega til Noregs og svo Þýskalands.“ Nú er hringnum í frásögninni lokað. Kristín sest að á hólnum og stýrir óskaverkefni í Eyjum. „Ég hef átt minn þátt í þessari uppbyggingu á Eldheimum en ef bæjarstjórnin hefði ekki trúað á verkefnið og komið svona myndarlega að því þá hefði ekkert gerst. Nú eru Eldheimar orðnir að veruleika og það er gaman að vera að reka þá, ég legg metnað minn í að það gangi sem best en ég er voðalega pirruð þegar samgöngur til Eyja eru stopular.“ Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl 2017
Herjólfur Vestmannaeyjar Heimaeyjargosið 1973 Mest lesið Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Menning Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Króli trúlofaður Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið Fleiri fréttir Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Frægir fjölguðu sér árið 2024 Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Sjá meira