Innlent

Snjókoma á heiðunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Snjókomu er spáð fram undir hádegi í dag.
Snjókomu er spáð fram undir hádegi í dag. Vísir/Anton
Snjókomu er spáð á á Hellisheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði frá því snemma í morgun og fram undir hádegi í dag þegar það hlánar, að því er kemur fram í ábendingum veðurfræðings hjá Vegagerðinni.

Eins er gert ráð fyrir snjókomu á fjallvegum norðanlands og á Vestfjörðum um tíma nærri hádegi, en á Steigrímsfjarðarheiði er spáð talsverðu hríðarkófi með norðaustan 16-19 metrum á sekúndu frá því skömmu fyrir hádegi og fram undir kvöld.

Vegir eru að mestu greiðfærir á Suður- og Vesturlandi en á Vestfjörðum eru hálkublettir, hálka eða hálkublettir á nokkrum fjallvegum en víðast greiðfært á láglendi.

Á Norður- og Austurlandi eru vegir víða auðir en þó eru hálkublettir eða hálka á nokkrum fjallvegum. Greiðfært er á Suðausturlandi.

Veðurhorfur á landinu

Suðaustan 13-20 m/s með morgninum og talsverð rigning sunnan og vestanlands, sums staðar hvassari í vindstrengjum við fjöll. Hægari fyrir norðan og austan og dálítil snjókoma eða slydda, en bætir einnig í vind þar eftir hádegi og fer að rigna. Sunnan 8-15 undir kvöld með súld og rigningu, einkum á sunnan- og vestanverðu landinu.

Hlýnandi veður, hiti 5 til 10 stig í kvöld. Suðvestlægari á morgun með úrkomu og kólnandi veðri, en þurrt og hlýtt norðaustantil fram eftir degi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Suðlæg átt 5-13 og rigning, en snýst í suðvestan 8-15 með éljum eftir hádegi, fyrst vestantil, en norðaustan 13-20 og slydda eða snjókoma norðantil um kvöldið. Kólnandi veður.

Á þriðjudag:

Norðan og norðvestan hvassviðri eða stormur og snjókoma og vægt frost, en úrkomulítið sunnantil á landinu og yfirleitt frostlaust. Hægari og úrkomuminna um kvöldið, en léttir til sunnanlands og frystir.

Á miðvikudag:

Gengur í sunnan 5-13 með rigningu, en slyddu eða snjókomu fyrir norðan, fyrst suðvestantil á landinu. Hlýnar í veðri, einkum sunnanlands.

Á fimmtudag:

Suðaustlæg átt og víða dálítil rigning, en slydda fyrir norðan. Hiti um eða yfir frostmarki að deginum.

Á föstudag:

Útlit fyrir vaxandi norðaustanátt með snjókomu eða slyddu og kólnandi veðri.

Á laugardag:

Líkur á norðlægri átt. Él á víð og dreif og kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×