Blikar voru undir í hálfleik en skoruðu þrjú mörk í seinni hálfleik og tryggðu sér stigin þrjú. Þetta var þriðji sigur Breiðabliks í röð.
Haukar komust yfir á 23. mín þegar Marjani Hing-Glover nýtti sér mistök í vörn Breiðabliks og kom boltanum framhjá Sonný Láru Þráinsdóttur í marki gestanna.
Staðan var 1-0 í hálfleik. Í seinni hálfleik gáfu Blikar í og á 54. mínútu jafnaði Fanndís Friðriksdóttir metin.
Tuttugu mínútum síðar skoraði Fanndís sitt annað mark og kom gestunum yfir. Landsliðskonan er nú komin með þrjú mörk í Pepsi-deildinni í sumar.
Það var svo Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir sem gerði út um leikinn með þriðja marki Blika á 84. mínútu. Andrea skoraði einnig í 2-0 sigrinum á Fylki í síðustu umferð.
Blikar eru sem áður sagði á toppi deildarinnar en Haukar eru stigalausir á botninum.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
Hér fyrir neðan má sjá myndir úr leiknum sem Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, tók.



