Líkamsárásin í Mosfellsdal í gær sem leiddi til dauða manns um fertugt er rannsökuð sem manndráp. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn málsins, í samtali við Vísi.
„Við höfum ekkert verið að fara yfir það sem hefur komið fram í framburðunum enn sem komið er,“ segir Grímur aðspurður hvort að játning liggi fyrir í málinu.
Þá er ekki vitað hvort að allir sakborningarnir sex beri jafn mikla ábyrgð í málinu.
„Rannsóknin snýst einmitt um það, að reyna að átta sig á aðild hvers og eins,“ segir Grímur en fimm karl og ein kona voru handtekin í gærkvöldi.
Fimm þeirra voru í dag úrskurðuð í 15 daga gæsluvarðhald en einn einstaklingur var úrskurðaður í átta daga varðhald. Öllum verður þeim haldið í einangrun.
Þá segir Grímur að krufning hafi farið fram á manninum sem lést en að dánarorsök liggi ekki endanlega fyrir.
Maðurinn var á heimili sínu með konu og nýfæddu barni þegar gestina bar að garði sem réðust á manninn með járnkylfum, tóku hann hálstaki, settu hendur hans fyrir aftan bak og létu höggin dynja á manninum. Urðu nokkur vitni að árásinni og er því lýst að amerískum pallbíl, sem lögregla fjarlægði af vettvangi síðar um kvöldið, hafi verið ekið yfir fætur mannsins. Maðurinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Fram kom í tilkynningu lögreglu í dag að rannsókn málsins sé mjög umfangsmikil og að hún sé í algjörum forgangi.
Grunuð um manndráp

Tengdar fréttir

Árásin við Æsustaði sögð hrottaleg
Hinn látni var á heimili sínu með unnustu og nýfæddu barni þegar fólk bar að garði.

Manndráp í Mosfellsdal: Upp undir tíu vitni verið yfirheyrð
Upp undir tíu vitni hafa verið yfirheyrð vegna manndrápsins í Mosfellsdal í gærkvöldi.

Manndráp í Mosfellsdal: Öll hin handteknu í gæsluvarðhald og einangrun
Enn hefur ekki verið úrskurðað í gæsluvarðhaldskröfu þess sjötta sem var handtekinn vegna málsins í gær