Stefnuleysi Hörður Ægisson skrifar 2. júní 2017 07:00 Linnulaus gengishækkun krónunnar er flóknasta viðfangsefni Seðlabankans og stjórnvalda um þessar mundir. Gengið hefur hækkað um meira en 20 prósent á einu ári, sem er mesta styrking á jafn skömmum tíma frá því í byrjun sjöunda áratugarins, og samtímis fer samkeppnishæfni þjóðarbúsins hratt þverrandi. Stjórnvöld hafa meðal annars brugðist við þessari stöðu með skipun verkefnisstjórnar sem á að koma með tillögur í haust um endurmat á forsendum peninga- og gjaldmiðlastefnu Íslands. Ljóst er hins vegar að forystumenn ríkisstjórnarinnar eru ekki á einu máli um áfangastaðinn í þeirri vinnu. Formaður Framsóknarflokksins benti – réttilega – á það stefnuleysi sem virðist ríkja í þessum efnum í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í vikunni. Á sama tíma og forsætisráðherra segir að krónan sé framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar talar fjármálaráðherra hins vegar krónuna „niður hvenær sem færi gefst“ og reynir eftir „fremsta megni að koma hér á myntráði sem líklega á að ljúka með upptöku evru“. Þetta er undarleg staða sem er uppi innan ríkisstjórnarinnar. Það vill stundum gleymast þegar rætt er um stefnu í gjaldmiðlamálum að valið snýst öðrum þræði um mismunandi slæma valkosti. Fjármálaráðherra hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að festa eigi gengi krónunnar, þar sem einkum er horft til evrunnar, með svonefndu myntráði. Það má efast stórkostlega um að slíkt fyrirkomulag þjóni hagsmunum Íslands. Eigi fastgengisstefna í gegnum myntráð að vera farsæl til lengri tíma litið er lykilatriði að það séu náin tengsl við hagsveiflu þess myntsvæðis sem gengið er fest við. Fyrir liggur að svo er alls ekki í tilfelli evrusvæðisins þar sem Ísland hefur lítil sem engin tengsl við hagsveifluna í kjarnaríkjum myntbandalagsins. Hagsaga Íslands, hvort sem litið er til ríkisfjármála eða vinnumarkaðarins, gefur að sama skapi ekki tilefni til að ætla að stjórnvöld og atvinnulífið hafi þann aga sem til þarf til að framfylgja trúverðugri fastgengisstefnu. Slíkir augljósir veikleikar í efnahagsmálum þjóðarinnar hverfa auðvitað ekki við það eitt að breytt sé um gjaldmiðilsstefnu. Myntráðsleið fjármálaráðherra myndi jafnframt útheimta gríðarlega gjaldeyrisforðasöfnun af hálfu Seðlabankans með tilheyrandi auknum vaxtakostnaði. Þótt bankinn hafi byggt upp forða sem nemur þriðjungi af landsframleiðslu þá þyrfti hann að vera margfalt stærri. Ófullnægjandi gjaldeyrisvarasjóður myndi að öðrum kosti auka stórlega líkur á áhlaupi á bankakerfið og gjaldmiðilinn um leið og fastgengið væri hætt að endurspegla undirliggjandi efnahagsstærðir í hagkerfinu. Vogunarsjóði George Soros tókst eftirminnilega að fella breska pundið árið 1992 og það má efast um að 800 milljarða forði Seðlabankans yrði mikil fyrirstaða ef sambærilegir sjóðir myndu sjá hagnaðartækifæri í því að láta reyna á fastgengisstefnu Benedikts Jóhannessonar. Það er áhyggjuefni að engin samstaða er á meðal helstu leiðtoga ríkisstjórnarinnar í mikilvægasta verkefni núverandi stjórnvalda – endurskoðun peningastefnunnar. Og á meðan svo er má tæplega ætla að sú vinna eigi eftir að skila nokkrum árangri.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hörður Ægisson Mest lesið Ísland heldur áfram að afsala sér milljarðatekjum af sölu losunarheimilda Hrafnhildur Bragadóttir,Birna Sigrún Hallsdóttir Skoðun Rasismi á Íslandi Snorri Ásmundsson Skoðun Lögheimili á landsbyggðinni Bragi Þór Thoroddsen Skoðun Hefur sala á rafbílum hrunið? Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson Skoðun Húsnæðisbrask: Meiri gróði en í fíkniefnaviðskiptum? Yngvi Ómar Sighvatsson Skoðun Vandræðagangur í Vatnsmýrinni Daði Rafnsson,Martin Swift Skoðun Aðeins það sem er þægilegt, takk Hjördís Sigurðardóttir Skoðun Sama tóbakið Skúli S. Ólafsson Skoðun Ögurstund í Seyðisfirði: Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar Árni Finnsson,Benedikta Guðrún Svavarsdóttir,Elvar Örn Friðriksson,Guðrún Óskarsdóttir,Jón Kaldal,Rakel Hinriksdóttir,Snorri Hallgrímsson,Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Vaxtarhugarfar: Lykillinn að nýsköpun, vexti og vellíðan á vinnustöðum Kristín Hrefna Halldórsdóttir Skoðun
Linnulaus gengishækkun krónunnar er flóknasta viðfangsefni Seðlabankans og stjórnvalda um þessar mundir. Gengið hefur hækkað um meira en 20 prósent á einu ári, sem er mesta styrking á jafn skömmum tíma frá því í byrjun sjöunda áratugarins, og samtímis fer samkeppnishæfni þjóðarbúsins hratt þverrandi. Stjórnvöld hafa meðal annars brugðist við þessari stöðu með skipun verkefnisstjórnar sem á að koma með tillögur í haust um endurmat á forsendum peninga- og gjaldmiðlastefnu Íslands. Ljóst er hins vegar að forystumenn ríkisstjórnarinnar eru ekki á einu máli um áfangastaðinn í þeirri vinnu. Formaður Framsóknarflokksins benti – réttilega – á það stefnuleysi sem virðist ríkja í þessum efnum í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í vikunni. Á sama tíma og forsætisráðherra segir að krónan sé framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar talar fjármálaráðherra hins vegar krónuna „niður hvenær sem færi gefst“ og reynir eftir „fremsta megni að koma hér á myntráði sem líklega á að ljúka með upptöku evru“. Þetta er undarleg staða sem er uppi innan ríkisstjórnarinnar. Það vill stundum gleymast þegar rætt er um stefnu í gjaldmiðlamálum að valið snýst öðrum þræði um mismunandi slæma valkosti. Fjármálaráðherra hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að festa eigi gengi krónunnar, þar sem einkum er horft til evrunnar, með svonefndu myntráði. Það má efast stórkostlega um að slíkt fyrirkomulag þjóni hagsmunum Íslands. Eigi fastgengisstefna í gegnum myntráð að vera farsæl til lengri tíma litið er lykilatriði að það séu náin tengsl við hagsveiflu þess myntsvæðis sem gengið er fest við. Fyrir liggur að svo er alls ekki í tilfelli evrusvæðisins þar sem Ísland hefur lítil sem engin tengsl við hagsveifluna í kjarnaríkjum myntbandalagsins. Hagsaga Íslands, hvort sem litið er til ríkisfjármála eða vinnumarkaðarins, gefur að sama skapi ekki tilefni til að ætla að stjórnvöld og atvinnulífið hafi þann aga sem til þarf til að framfylgja trúverðugri fastgengisstefnu. Slíkir augljósir veikleikar í efnahagsmálum þjóðarinnar hverfa auðvitað ekki við það eitt að breytt sé um gjaldmiðilsstefnu. Myntráðsleið fjármálaráðherra myndi jafnframt útheimta gríðarlega gjaldeyrisforðasöfnun af hálfu Seðlabankans með tilheyrandi auknum vaxtakostnaði. Þótt bankinn hafi byggt upp forða sem nemur þriðjungi af landsframleiðslu þá þyrfti hann að vera margfalt stærri. Ófullnægjandi gjaldeyrisvarasjóður myndi að öðrum kosti auka stórlega líkur á áhlaupi á bankakerfið og gjaldmiðilinn um leið og fastgengið væri hætt að endurspegla undirliggjandi efnahagsstærðir í hagkerfinu. Vogunarsjóði George Soros tókst eftirminnilega að fella breska pundið árið 1992 og það má efast um að 800 milljarða forði Seðlabankans yrði mikil fyrirstaða ef sambærilegir sjóðir myndu sjá hagnaðartækifæri í því að láta reyna á fastgengisstefnu Benedikts Jóhannessonar. Það er áhyggjuefni að engin samstaða er á meðal helstu leiðtoga ríkisstjórnarinnar í mikilvægasta verkefni núverandi stjórnvalda – endurskoðun peningastefnunnar. Og á meðan svo er má tæplega ætla að sú vinna eigi eftir að skila nokkrum árangri.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Ísland heldur áfram að afsala sér milljarðatekjum af sölu losunarheimilda Hrafnhildur Bragadóttir,Birna Sigrún Hallsdóttir Skoðun
Ögurstund í Seyðisfirði: Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar Árni Finnsson,Benedikta Guðrún Svavarsdóttir,Elvar Örn Friðriksson,Guðrún Óskarsdóttir,Jón Kaldal,Rakel Hinriksdóttir,Snorri Hallgrímsson,Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun
Vaxtarhugarfar: Lykillinn að nýsköpun, vexti og vellíðan á vinnustöðum Kristín Hrefna Halldórsdóttir Skoðun
Ísland heldur áfram að afsala sér milljarðatekjum af sölu losunarheimilda Hrafnhildur Bragadóttir,Birna Sigrún Hallsdóttir Skoðun
Ögurstund í Seyðisfirði: Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar Árni Finnsson,Benedikta Guðrún Svavarsdóttir,Elvar Örn Friðriksson,Guðrún Óskarsdóttir,Jón Kaldal,Rakel Hinriksdóttir,Snorri Hallgrímsson,Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun
Vaxtarhugarfar: Lykillinn að nýsköpun, vexti og vellíðan á vinnustöðum Kristín Hrefna Halldórsdóttir Skoðun