Innlent

Fyrrum eigandi Strawberries dæmdur í árs fangelsi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Viðar Már Friðfinnsson, fyrrum eigandi kampavínsklúbbsins Strawberries, hefur verið dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir meiriháttar skattalagabrot. Þá var hann dæmdur til greiðslu sektar í ríkissjóð upp á 242 milljónir króna en sýknað var af kröfu ákæruvaldsins um upptöku eigna í eigu félaga hans.

Viðar var handtekinn og færður í varðhald haustið 2013 í tengslum við rannsókn lögreglu á starfsemi Strawberries eftir ábendingar um að vændisstarfsemi færi þar fram. Rannsókn málsins leiddi í ljós að málið taldist ekki líklegt til sakfellingar og var ekki gefin út ákæra vegna þessa. 

Viðar var þó ákærður fyrir skattalagabrot og féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku þar sem Viðar hlaut 12 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu í reksti staðarins.

Þá var hann dæmdur til greiðslu sektar í ríkissjóð upp á 242 milljónir króna en verði sú skuld ekki greidd innan fjögurra vikna kemur vararefsins í hennar stað sem er 12 mánaða fangelsisrefsing. Viðar hafði neitað allra sök fyrir dómi. Þá var ákæru vegna bókhaldsbrots vísað frá dómi. Auk þessa hafði ákæruvaldið  gert kröfu um upptöku eigna í eigu tilgreindra félaga í eigu Viðars en um ræðir vinnutæki, fasteignir og bifreiðar. Sýknað var af kröfu ákæruvaldsins um upptöku eignanna.
 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×