Innlent

Skoða losun fráveituvatns í borholur

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Síðustu ár hefur verið fjallað um róttækar breytingar á umhverfi Mývatns. Mikið hefur verið af blábakteríum við vatnið og gert það græn- og brúnlitað. Botngróður hefur horfið að mestu á undanförnum árum, hinn sjaldgæfi kúluskítur finnst varla lengurí vatninu, Mývatnsbleikjan er í útrýmingarhættu og hornsílum hefur fækkað verulega.

Ekki er fullljóst hvað veldur þessari þróun, en henni svipar til breytinga sem verða í stöðuvötnum sem fá of mikið af næringarefnum.

Fyrir ári skilaði samstarfshópur um málefni Mývatns skýrslu þar sem kallað var eftir umbótum í fráveitumálum og öðrum aðgerðum til að draga úr innstreymi næringarefna í Mývatn.

Í dag sendi sveitarfélagið Skútustaðahreppur og fimmtán rekstraraðilar í sveitarfélaginu inn fimm ára umbótaáætlun um fráveitumál.

„Þetta er fyrst og fremst metnaðarfull áætlun - sveitarfélagið og rekstaraðilar vilja vera til fyrirmyndar þegar kemur að fráveitumálum í Mývatnssveit," segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

Í áætluninni er lögð áhersla á að kanna þann möguleika að losa næringarríkt fráveituvatn í borholur sem er þekkt aðferð frá Bandaríkjunum en hefur ekki verið reynt á Íslandi.

„Þetta gengur út á að dæla affalli, eða grávatni, niður fyrir vatnsborðið þannig að þetta fer beint niður fyrir vatnið og ofan við hraunið sem er gljúft þannig að það er talið að þetta fari þá bara út í hafið eins og frárennslið í öðrum sveitarfélögum gera á endanum," segir Þorsteinn.

Áætlunin gerir ráð fyrir 500-700 milljóna króna kostnaði sem er mikið fyrir lítið sveitarfélag. Þorsteinn lítur á verndun Mývatns sem samstarfsverkefni íslensku þjóðarinnar og treystir á aðkomu ríkisins fyrir næstu skref.

„Nú erum við búin að skila okkar umbótaáætlun, búin að vinna okkar heimavinnu en nú stendur upp á ríkið að koma að borðinu eins og þeim ber að gera samkvæmt verndarlögum um mývatn og laxá," segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×