Ég samfélagið Þorbjörn Þórðarson skrifar 29. júní 2017 07:00 Tölfræðileg gögn og niðurstöður rannsókna hafa leitt í ljós að manneskjan verður sjálfhverfari og sjálfmiðaðri með tímanum. Árið 1950 töldu 12 prósent bandarískra ungmenna á lokaári miðskóla sig vera „mjög mikilvægar manneskjur“ samkvæmt könnun Gallup. Árið 2005 var þetta hlutfall komið upp í 80 prósent. Poppmenning, kvikmyndir og bækur geyma þann boðskap að fólk eigi að hlusta á sjálft sig og sína innri rödd, sama hvað aðrir segja. Í samfélagi þar sem allir hlusta og treysta sjálfum sér er minna svigrúm fyrir auðmýkt og viðurkenningu á eigin takmörkunum.David Brooks, pistlahöfundur New York Times, segir í bók sinni The Road To Character að vitsmunaleg auðmýkt sé rétt sjálfsmat úr fjarlægð. Það sé að fjarlægjast sjálfhverfu yngri áranna þar sem eigin tilvist er þungamiðjan og þekur allan strigann, ef lífið væri málverk, yfir í breiðmynd þar sem manneskjan er hluti af stærri heild. Þannig geti manneskjan vegið og metið kosti sína og galla og séð hlutverk sitt í lífinu og samfélaginu í stærra samhengi. Brooks segir að sönn viska sé að viðurkenna og horfast af auðmýkt í augu við takmarkanir sínar og þekkingarleysi. Það er dálítið athyglisvert að setja þetta í samhengi við stjórnmál. Hvenær gerðist það síðast að stjórnmálamaður á Íslandi svaraði spurningu með svarinu „Ég veit það ekki“? Það gerist ekki oft en það kemur fyrir. Á síðustu árum má nefna Rögnu Árnadóttur sem var dómsmálaráðherra utan þings 2009-2010 og Jón Gnarr í embætti borgarstjóra 2010-2014. Með einlægni komu þau bæði eins og ferskur andblær inn í stjórnmálin en hvorugt þeirra hafði bakgrunn í pólitík. Ástæða þess að stjórnmálamenn viðurkenna sjaldan þekkingarleysi er að verðmiði auðmýktar á tímum falsins og froðunnar er lægri. Stjórnmálamenn, rétt eins og fréttamenn og pistlahöfundar dagblaða, lifa og hrærast í veröld sem hampar þeim sem hafa svörin á reiðum höndum. Það er engin eftirspurn eftir: „Ég veit það ekki“ á tímum sem keyra áfram á ljóshraða internets og samfélagsmiðla. Nútímasamfélagið verðlaunar ekki auðmýkt heldur mikilfengleika. Donald Trump náði árangri í forvali repúblikana með því að niðurlægja keppinauta sína og upphefja sjálfan sig á þeirra kostnað. Hann lét aldrei staðreyndir máls vefjast fyrir sér á þeirri vegferð. Hægt er að nefna svipuð dæmi úr íslenskum veruleika, þótt þau séu ekki jafn öfgakennd. Við sjáum þetta stundum á Alþingi þar sem upphrópanir eru almennt viðurkenndur gjaldmiðill. Andsvörin þurfa að vera hnyttin, beitt og ýkt til að komast á flug í ljósvakanum. Verðmætustu stjórnmálamennirnir eru samt þeir sem búa yfir nægilega mikilli visku til að horfast í augu við eigin galla og viðurkenna að þeir hafi ekki svörin á reiðum höndum. Því þá hafa þeir tamið sér sanna auðmýkt og líf í heiðarleika. Það gerist hins vegar ekki nema með hugarfarsbreytingu þeirra sem fara með atkvæðisréttinn. Ef samfélagið verðlaunar ekki auðmýkt verður minna framboð af henni.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þorbjörn Þórðarson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Tölfræðileg gögn og niðurstöður rannsókna hafa leitt í ljós að manneskjan verður sjálfhverfari og sjálfmiðaðri með tímanum. Árið 1950 töldu 12 prósent bandarískra ungmenna á lokaári miðskóla sig vera „mjög mikilvægar manneskjur“ samkvæmt könnun Gallup. Árið 2005 var þetta hlutfall komið upp í 80 prósent. Poppmenning, kvikmyndir og bækur geyma þann boðskap að fólk eigi að hlusta á sjálft sig og sína innri rödd, sama hvað aðrir segja. Í samfélagi þar sem allir hlusta og treysta sjálfum sér er minna svigrúm fyrir auðmýkt og viðurkenningu á eigin takmörkunum.David Brooks, pistlahöfundur New York Times, segir í bók sinni The Road To Character að vitsmunaleg auðmýkt sé rétt sjálfsmat úr fjarlægð. Það sé að fjarlægjast sjálfhverfu yngri áranna þar sem eigin tilvist er þungamiðjan og þekur allan strigann, ef lífið væri málverk, yfir í breiðmynd þar sem manneskjan er hluti af stærri heild. Þannig geti manneskjan vegið og metið kosti sína og galla og séð hlutverk sitt í lífinu og samfélaginu í stærra samhengi. Brooks segir að sönn viska sé að viðurkenna og horfast af auðmýkt í augu við takmarkanir sínar og þekkingarleysi. Það er dálítið athyglisvert að setja þetta í samhengi við stjórnmál. Hvenær gerðist það síðast að stjórnmálamaður á Íslandi svaraði spurningu með svarinu „Ég veit það ekki“? Það gerist ekki oft en það kemur fyrir. Á síðustu árum má nefna Rögnu Árnadóttur sem var dómsmálaráðherra utan þings 2009-2010 og Jón Gnarr í embætti borgarstjóra 2010-2014. Með einlægni komu þau bæði eins og ferskur andblær inn í stjórnmálin en hvorugt þeirra hafði bakgrunn í pólitík. Ástæða þess að stjórnmálamenn viðurkenna sjaldan þekkingarleysi er að verðmiði auðmýktar á tímum falsins og froðunnar er lægri. Stjórnmálamenn, rétt eins og fréttamenn og pistlahöfundar dagblaða, lifa og hrærast í veröld sem hampar þeim sem hafa svörin á reiðum höndum. Það er engin eftirspurn eftir: „Ég veit það ekki“ á tímum sem keyra áfram á ljóshraða internets og samfélagsmiðla. Nútímasamfélagið verðlaunar ekki auðmýkt heldur mikilfengleika. Donald Trump náði árangri í forvali repúblikana með því að niðurlægja keppinauta sína og upphefja sjálfan sig á þeirra kostnað. Hann lét aldrei staðreyndir máls vefjast fyrir sér á þeirri vegferð. Hægt er að nefna svipuð dæmi úr íslenskum veruleika, þótt þau séu ekki jafn öfgakennd. Við sjáum þetta stundum á Alþingi þar sem upphrópanir eru almennt viðurkenndur gjaldmiðill. Andsvörin þurfa að vera hnyttin, beitt og ýkt til að komast á flug í ljósvakanum. Verðmætustu stjórnmálamennirnir eru samt þeir sem búa yfir nægilega mikilli visku til að horfast í augu við eigin galla og viðurkenna að þeir hafi ekki svörin á reiðum höndum. Því þá hafa þeir tamið sér sanna auðmýkt og líf í heiðarleika. Það gerist hins vegar ekki nema með hugarfarsbreytingu þeirra sem fara með atkvæðisréttinn. Ef samfélagið verðlaunar ekki auðmýkt verður minna framboð af henni.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu.