Svandís og Birgitta voru á meðal gesta Heimis Más Péturssonar í stjórnmálaþættinum Víglínunni á Stöð 2 í dag. Gestir þáttarins að sinni voru auk þess Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Oddný Mjöll Arnardóttir frá Samfylkingunni. Í þættinum var farið um víðan völl en helst var til umræðu framkvæmd mála um uppreist æru og nýbirtar skoðanakannanir.
Birgitta tekur mið af skoðanakönnun Fréttablaðsins og segir að erfiðir tímar séu að fara í hönd. Hún segir að ef átta flokkar verði á þingi blasir við að raunverulegur möguleiki sé á langvarandi stjórnmálakreppu. Þá bendir hún auk þess á að kjarasamningar fari að losna.

Hún beinir sjónum jafnframt að viðkvæmri stöðu innviða í samfélaginu: „Við erum með ofsalega viðkvæma innviði. Það er ekki ennþá búið að jafna það sem var skorið niður í hruninu. Heilbrigðiskerfið er ennþá að reyna að komast upp á þann stað áður en niðurskurðurinn byrjaði. Tíu prósent í niðurskurði? Það er rosalega mikið,“ segir Birgitta sem gerir fjárlagafrumvarpið að umfjöllunarefni sínu. „Sú sveltistefna sem birtist í fjárlögum ríkisstjórnarinnar sem er að fara frá er áhyggjuefni.“

Svandís telur að þegar allt komi til alls snúist þetta um hverjir ætli að vera með, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, að hlúa að innviðum samfélagsins: „Það er að segja að koma okkur aftur af stað í það að vera samfélag sem er til fyrirmyndar á heimsvísu eftir allan niðurskurðinn eftir hrunið og það áfall sem þar varð. Það viljum við gera og Katrín er til í að leiða það,“ segir Svandís.
Þáttastjórnandi Víglínunnar spyr Svandísi þá hvort Vinstri græn boði ekki aukna skatta og Svandís segir að skattkerfið sé í hugum Vinstri grænna tæki til að jafna kjör í landinu. „Þess vegna eigum við að vera hiklaus í því að sækja fjármagnið til þeirra sem það eiga. Það þýðir ekki skattheimta á venjulegt fólk. Við erum ekki að tala um aukna skatta á venjulegt fólk. Við erum að tala um aukna skatta á þá sem eru moldríkir í þessu samfélagi og hafa verið að maka krókinn, jafnvel með því að nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar,“ segir Svandís til útskýringar.
Hægt er að horfa á Víglínuna í heild sinni í myndspilaranum efst í fréttinni.