Dugnaðarforkar Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 18. nóvember 2017 07:00 Makríl, ferðamönnum og hagfelldu uppgjöri við erlenda kröfuhafa getum við þakkað efnahagslega velsæld hér á landi um þessar mundir. Í þessa margendurteknu upptalningu vantar fjórða happafenginn, sem kannski vegur þyngst – vinnufúsar hendur útlendra dugnaðarforka. Án þeirra hefði verið allsendis ómögulegt að nýta verðmætin sem rak á fjörur okkar eftir hrun. Færri hótel væru risin, færri matstaðir hefðu náð fótfestu og færri rútur væru á ferð um sveitirnar. Við eigum það ekki síst að þakka útlendu fólki að risin er atvinnugrein, sem er burðarás góðærisins sem við njótum þessa dagana. Í fróðlegri grein í Kjarnanum nýlega kemur fram að áttundi hver skattgreiðandi á Íslandi er með útlenskt ríkisfang og að þeim fjölgaði um meira en fjórðung í fyrra. Á því sést að það er af og frá að halda því fram, að útlendingar komi til Íslands og leggist upp á velferðarkerfið. Þvert á móti, skattfé útlendinga gerir okkur kleift að styrkja innviðina og skjóta styrkari stoðum undir kerfið. Vegna EES-samningsins fara þessar breytingar hljóðlega. Gagnkvæm réttindi tryggja, að fólk frá EES-löndum getur sótt vinnu í samningslöndunum án þess að þræða í gegnum nálarauga skriffinnskunnar. Sama átti við um Íslendinga – ekki síst iðnaðarmenn – sem sóttu til útlanda þegar harðnaði á dalnum eftir hrun. Án EES hefði stór hópur lent á atvinnuleysisskrá. Nú hafa margir snúið til baka, sumir með ferskar hugmyndir og nýja þekkingu í farteskinu. Af því er beinlínis efnahagslegur ávinningur. Reynslan eftir efnahagsáfallið kennir okkur að gagnkvæm atvinnuréttindi skapa æskilegan sveigjanleika í meðbyr og ekki síður í mótbyr. Þessi lærdómur fær lítið svigrúm í pólitíkinni. Þetta bar helst á góma í kosningabaráttunni þegar gaspri einstaka heimóttarlegra frambjóðenda var andmælt. Röddum gaspraranna fækkar sem betur fer enda tala staðreyndirnar sínu máli. Æ fleiri læra að umgangast útlendinga og virðast kunna því vel. Um það vitna kosningarannsóknir. Fyrir áratug sá meira en þriðjungur Íslendinga einhvers konar ógn við eigin þjóðareinkenni frá útlendu fólki. Sá hópur hefur skroppið sama um helming, er innan við 18 prósent núna, samkvæmt fyrrnefndri grein. Þar kom fram, að Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn óttast útlend áhrif meira en kjósendur annarra flokka. Frjáls för fólks er ein af meginstoðum Evrópusamvinnunnar. Vestur-Evrópubúar sem nú eru á miðjum aldri hafa alist upp við frelsið og líta á það sem sjálfsagðan hlut. Breskir bændur sem flestir studdu Brexit, eru nú að vakna upp við vondan draum. Þeir eru að átta sig á því, að færanlegt vinnuafl er ein meginstoðin í þeirra rekstri. Farandverkamenn frá Austur-Evrópu hafa streymt til Bretlands á uppskerutímum. Þótt Brexit sé ekki skollið á hefur ásókn landbúnaðarverkamanna til Bretlands minnkað. Uppskera eyðileggst. Verkafólkið á marga kosti og sækir þangað sem því er tekið opnum örmum. Samkeppni er um hreyfanlega vinnuaflið. Gagnlegt að vita fyrir alla sem þurfa fleiri vinnufúsar hendur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun
Makríl, ferðamönnum og hagfelldu uppgjöri við erlenda kröfuhafa getum við þakkað efnahagslega velsæld hér á landi um þessar mundir. Í þessa margendurteknu upptalningu vantar fjórða happafenginn, sem kannski vegur þyngst – vinnufúsar hendur útlendra dugnaðarforka. Án þeirra hefði verið allsendis ómögulegt að nýta verðmætin sem rak á fjörur okkar eftir hrun. Færri hótel væru risin, færri matstaðir hefðu náð fótfestu og færri rútur væru á ferð um sveitirnar. Við eigum það ekki síst að þakka útlendu fólki að risin er atvinnugrein, sem er burðarás góðærisins sem við njótum þessa dagana. Í fróðlegri grein í Kjarnanum nýlega kemur fram að áttundi hver skattgreiðandi á Íslandi er með útlenskt ríkisfang og að þeim fjölgaði um meira en fjórðung í fyrra. Á því sést að það er af og frá að halda því fram, að útlendingar komi til Íslands og leggist upp á velferðarkerfið. Þvert á móti, skattfé útlendinga gerir okkur kleift að styrkja innviðina og skjóta styrkari stoðum undir kerfið. Vegna EES-samningsins fara þessar breytingar hljóðlega. Gagnkvæm réttindi tryggja, að fólk frá EES-löndum getur sótt vinnu í samningslöndunum án þess að þræða í gegnum nálarauga skriffinnskunnar. Sama átti við um Íslendinga – ekki síst iðnaðarmenn – sem sóttu til útlanda þegar harðnaði á dalnum eftir hrun. Án EES hefði stór hópur lent á atvinnuleysisskrá. Nú hafa margir snúið til baka, sumir með ferskar hugmyndir og nýja þekkingu í farteskinu. Af því er beinlínis efnahagslegur ávinningur. Reynslan eftir efnahagsáfallið kennir okkur að gagnkvæm atvinnuréttindi skapa æskilegan sveigjanleika í meðbyr og ekki síður í mótbyr. Þessi lærdómur fær lítið svigrúm í pólitíkinni. Þetta bar helst á góma í kosningabaráttunni þegar gaspri einstaka heimóttarlegra frambjóðenda var andmælt. Röddum gaspraranna fækkar sem betur fer enda tala staðreyndirnar sínu máli. Æ fleiri læra að umgangast útlendinga og virðast kunna því vel. Um það vitna kosningarannsóknir. Fyrir áratug sá meira en þriðjungur Íslendinga einhvers konar ógn við eigin þjóðareinkenni frá útlendu fólki. Sá hópur hefur skroppið sama um helming, er innan við 18 prósent núna, samkvæmt fyrrnefndri grein. Þar kom fram, að Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn óttast útlend áhrif meira en kjósendur annarra flokka. Frjáls för fólks er ein af meginstoðum Evrópusamvinnunnar. Vestur-Evrópubúar sem nú eru á miðjum aldri hafa alist upp við frelsið og líta á það sem sjálfsagðan hlut. Breskir bændur sem flestir studdu Brexit, eru nú að vakna upp við vondan draum. Þeir eru að átta sig á því, að færanlegt vinnuafl er ein meginstoðin í þeirra rekstri. Farandverkamenn frá Austur-Evrópu hafa streymt til Bretlands á uppskerutímum. Þótt Brexit sé ekki skollið á hefur ásókn landbúnaðarverkamanna til Bretlands minnkað. Uppskera eyðileggst. Verkafólkið á marga kosti og sækir þangað sem því er tekið opnum örmum. Samkeppni er um hreyfanlega vinnuaflið. Gagnlegt að vita fyrir alla sem þurfa fleiri vinnufúsar hendur.