Lífið

Binni Glee: Hættur að hanga í Kringlunni en finnst þó alltaf gaman að hitta aðdáendur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Binni Glee ræðir við Lóu Pind.
Binni Glee ræðir við Lóu Pind. Vísir/Skjáskot
„Ég er hættur að fara í Kringluna og Smáralind svona til að hanga þar,” segir ein skærasta snappstjarna landsins, Brynjar Steinn sem kallar sig Binni Glee á Snapchat. „Af því ég er svo hræddur um að það komi geðveikt mikið af fólki og ég muni ekki höndla það en mér finnst samt alltaf gaman að hitta fylgjendur mína,” segir þessi 18 ára menntskælingur frá Akureyri sem hefur þúsundir fylgjenda á Snapchat, marga í yngri kantinum, sem eru ófeimnir við að biðja hann um selfís þegar þeir mæta honum á förnum vegi.

Þegar Binni Glee fór í Smáralind skömmu fyrir Justin Bieber tónleikana síðastliðið haust var hann gráti nær eftir að það hrúguðust að honum aðdáendur til að biðja um myndir.

Binni Glee er einn af þeim vinsælu íslensku snöppurum sem rætt er við í nýrri þáttaröð Lóu Pind - Snapparar. Allt sjarmerandi fólk með ríkulega athyglisþörf sem hefur náð að laða þúsundir, sumir tugþúsundir Íslendinga til að fylgjast með lífi sínu á Snapchat. Hvaða fólk er þetta og hvers konar fólk nær að slá í gegn á Snapchat? Getur maður lifað á því að vera atvinnuáhrifavaldur?

Fyrsti þáttur Snappara verður á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld kl. 19:55 þar sem við kynnumst meðal annars snappstjörnunum Binna Glee og Manúelu Ósk. Umsjón þáttanna er í höndum Lóu Pind Aldísardóttur, upptökustjórn og klippingu annaðist Lúðvík Páll Lúðvíksson.

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×