Innlent

Klofinn héraðsdómur dæmdi mann í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Birgir Olgeirsson skrifar
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri.
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri. Vísir/pjetur
Héraðsdómur Norðurlands eystrahefur dæmt karlmann til tveggja ára fangelsisvistar fyrir nauðgun. Var hann ákærður fyrir að hafa að morgni sunnudagsins 23. október 2016 haft samræði og önnur kynferðismök við konu gegn hennar vilja, með því að stinga fingrum í leggöng hennar og hafa við hana samræði, þar sem hún lá sofandi í sófanum og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar, en konan var gestkomandi á heimili mannsins.

Þrír dómarar dæmdu þetta mál en einn þeirra skilaði sérákvæði þar sem hann taldi ásetning mannsins ekki sannaðan svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa og taldi að sýkna ætti hann af kröfum ákæruvaldsins og vísa einkaréttakröfu frá dómi.

Hinir dómararnir töldu að manninum hafi verið ljóst að konan gat ekki spornað við verknaðinum og að ekkert tilefni hefði verið til að ætla að hún hefði verið samþykk mökunum. Það hafi hins vegar ekki aftrað honum og töldu dómararnir tveir að telja verði að maðurinn hafi með háttsemi sinni brotið gegn almennum hegningarlögum svo sem honum var gefið að sök í ákæru.

Auk tveggja ára fangelsisvistar var manninum gert að greiða konunni 1,5 milljónir króna í miskabætur.

Þá þarf maðurinn að greiða 1,7 milljónir króna í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns upp á 900 þúsund krónur auk réttargæslulaun upp á 613 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×