Lífið

Grallarasvipur á litlu prinsessunni á konunglega jólakortinu

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Blátt fer þeim vel.
Blátt fer þeim vel. Vísir / Úr safni
Vilhjálmur Bretaprins og eiginkona hans, Kate Middleton, hertogynjan af Cambridge, eru búin að afhjúpa jólakortið sitt í ár og er það alveg jafn krúttlegt og jólakort fyrri ára.

Að sjálfsögðu eru það börnin þeirra tvö, George prins og Charlotte prinsessa, sem stela senunni af foreldrum sínum, en skemmtilegur grallarasvipur er á litlu prinsessunni, sem varð tveggja ára á árinu sem er að líða.

Stoltir foreldrar með börnunum sínum tveimur, sem bráðum verða þrjú.Vísir / Úr safni
Myndin á jólakorti fjölskyldunnar í ár er uppstillt og eru þau öll klædd í stíl í bláu þema. Myndin var tekin af konunglega ljósmyndaranum Chris Jackson, sem myndaði einnig George prins í sumar þegar hann varð fjögurra ára. Líklegt er að jólakortamyndin hafi verið tekin á sama tíma, þar sem George var í sömu fötum í þeirri myndatöku. Þess má geta að Kate er í dragt frá Catherine Walker en hún hefur klæðst þessari sömu dragt við ýmis tækifæri.

Hér er jólakortið síðan í fyrra.Vísir / Úr safni
Það er orðið að eins konar hefð að Vilhjálmur og Kate deili jólakorti sínu með almenningi. Í fyrra var jólakortið með mynd af heimsókn þeirra til Kanada, sem var fyrsta heimsókn fjölskyldunnar til útlanda.

 

Hér er svo fyrsta jólakortið hennar Charlotte litlu.Vísir / Úr safni
Þá bræddu George og Charlotte ófá hjörtu á jólakortamyndinni árið 2015. Myndirnar fyrir kortin 2015 og 2016 voru teknar utandyra en í ár bryddar konunglega fjölskyldan uppá nýjung með uppstilltri mynd í stúdíói. 

Gaman verður að sjá jólakortið á næsta ári, en Vilhjálmur og Kate eiga von á sínu þriðja barni í apríl. Fjölskyldan eyðir jólunum með konungsfjölskyldunni, þar á meðal hinum nýtrúlofuðu Harry prins og Meghan Markle, á sveitasetri drottningarinnar, Sandringham House.

 

Þetta kort sendu Kate og Vilhjálmur út til að þakka fyrir jólakveðjurnar þegar George prins var lítill.Vísir / Úr safni

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×