Innlent

Hver Íslendingur notar 150 lítra af dýrmætu vatni á dag

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Það eru örugglega fáir sem gera sér grein fyrir að þeir noti 150 lítra af vatni á hverjum einasta degi. Mesta einkaneyslan fer fram á salerninu, þegar við böðum okkur, eldum mat og þvoum þvott.

En Íslendingar þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af vatnsnotkun þar sem ferskvatn á hvern íbúa hér á landi sprengir skalann í samanburði við önnur lönd. Á morgunverðarfundi Samorku í morgun, þar sem fjallað var um vatnsauðlindina, fjallaði Jón Skafti Gestsson, hagfræðingur, um hve mikil verðmæti felast í magni vatnsins og hreinleika þess.

„Ég tók dæmi um sjúkdóma sem fylgja óhreinu vatni í þróunarlöndun þar sem 88% sjúkdóma koma til vegna óhreins neysluvatns,“ segir hann.

Afleiddur kostnaður vegna þessa fyrir þjóðina væri 50-60 milljarðar árlega. Fyrir utan beinan kostnað við hreinsun vatnsins - sem Íslendingar sleppa við.

„Þá gæti hver fjölskylda verið að borga um tíu þúsund krónur á ári fyrir vatnsreikninginn sinn og það safnast mjög fljótt upp,“ segir Jón Skafti.

Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Veitna, sagði á fundinum að ekki megi taka vatninu sem sjálfsögðum hlut, sérstaklega í ljósi frétta undanfarna daga um jarðvegsgerla í vatni.

„Það er alveg ljóst á viðbrögðum undanfarna daga að við sem samfélag erum ekki vön að glíma við upplýsingar um neysluvatnið okkar. Og ég vona að þessi umræða veki athygli á mikilvægi hreins neysluvatns og vatnsvernd,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×