Innlent

„Hörkuvetrarveður“ gengur yfir landið

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Skyggni var um tíma lítið í Reykjavík.
Skyggni var um tíma lítið í Reykjavík. Vísir/Vilhelm
Vonskuveður hefur verið á Norðan- og vestanverðu landinu framan af degi. Björgunarsveitir hafa sinnt útköllum á Norðurlandi og lokað er fyrir alla umferð um Þröskulda og Öxnadalsheiði.

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið, suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og allt norðurland. Veður hefur verið hvað verst í Eyjafirði í morgun, en þar hafa vindhviður hafa farið yfir 45 m/s og hafa björgunarsveitir þurft að sinna nokkrum útköllum.

Þá er skyggni slæmt og éljagangur víða um land og hefur því verið gripið til lokana á vegum. Þannig er ófært um Öxnadalsheiði og Þröskulda milli Steingrímsfjarðar og Króksfjarðar. Auk þess eru flestir fjallvegir á Vestfjörðum ófærir.

Þorsteinn V. Jónsson, vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, gerir ráð fyrir að veðrið skáni nokkuð þegar líður á daginn.

„Það var smá hvellur á Norðurlandi í morgun. Það gekk mjög kröpp og djúp lægð Norðaustur yfir landið. Það voru víða mjög öflugar vindhviður í Skagafirði, á Tröllaskaga og við Eyjafjörðinn. Það er nú heldur betur að lagast núna,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn á þó von á því að áfram verði éljagangur í allan dag. Það sé því ástæða til að fylgjast vel með veðurspá og upplýsingum frá Vegagerðinni. Hann segir ekki ráðlegt að halda í mikil ferðalög nema fyrir þeim mun vanari bílstjóra, enda geti skyggni verið afar lítið.

„Svo auk auk þess er hálka sumstaðar og leiðinleg færð á köflum þannig að þetta er svona hörkuvetrarveður núna sem gengur yfir landið,“ segir Þorsteinn.

Búast megi við miklu vetrarveðri áfram í vikunni.

„Það fer í ákveðna norðanátt núna strax á morgun og verður þannig út vikuna. Þá náttúrulega verður éljagangurinn og ofankomin bundin við norðanvert landið en á sunnanverðu landinu verður víða bjart og úrkomulítið í vikunni en kalt. Það er svona heldur að bæta í frostið.“


Tengdar fréttir

Víða ófært vegna veðurs

Vonskuveður er víða um land í dag og hefur þjóðvegi 1 um Öxnadalsheiði verið lokað vegna veðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×