Íslenska sautján ára landslið kvenna í fótbolta vann lokaleik sinn í millriðli undankeppni EM sem lauk í Þýskalandi í dag.
Íslensku stelpurnar unnu þá 3-1 sigur á Aserbaídsjan eftir að hafa verið komnar í 2-0 strax í hálfleik.
Víkingurinn Arna Eiríksdóttir skoraði tvö fyrstu mörk Íslands í leiknum en þau komu bæði eftir hornspyrnur frá fyrirliðanum Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.
Karólína Lea spilar með Breiðabliki í Pepsi-deildinni í sumar en hún er uppalin FH-ingur.
Víkingurinn Karólína Jack bætti svo þriðja markinu við, snemma í síðari hálfleik.
Víkingsstelpurnar skoruðu því öll mörk íslenska liðsins í leiknum en lið HK/Víkings er nýliði í Pepsi-deild kvenna í sumar og það er ljóst að þar spila ungar og stórefnilegar knattspyrnukonur.
Aserar minnkuðu muninn um miðjan hálfleikinn og var þar sjálfsmark íslenska liðsins.
Ísland endaði í öðru sæti riðilsins á eftir gestgjöfunum í Þýskalandi, sem lögðu Íra í dag, 2-0. Ísland tapaði 3-1 á móti Þýskalandi en vann Írland 1-0. Þýskalandi tryggði sér þar með sæti í úrslitakeppninni sem fram fer í Litháen nú í maí.

