„Það liggur í augum uppi að kjör bæjarstjóra Kópavogs hafa keyrt fram úr öllu hófi og að á nýju kjörtímabili verði þessi laun tekin til endurskoðunar með lækkun,“ segir Birkir Jón Jónsson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Kópavogi, í tilkynningu vegna fréttar Fréttablaðsins í gær af launahækkunum kjörinna fulltrúa í bænum.
Eins og blaðið greindi frá í gær hækkuðu laun bæjarstjórans, Ármanns Kr. Ólafssonar, um 32,7 prósent milli áranna 2016 og 2017, eða sem nemur ríflega 612 þúsund krónum á mánuði.
Sjá einnig: Mánaðarlaun bæjarstjórans hækkuðu um 612 þúsund
Bæjarstjórn Kópavogsbæjar samþykkti í febrúar í fyrra að hafna 44 prósenta hækkun kjararáðs og tengja laun kjörinna fulltrúa við þingfararkaup.
Sú ákvörðun færði bæjarfulltrúum þrátt fyrir það 30 prósentum hærri laun milli ára.

